Körfubolti

Stuðningsmenn Njarðvíkur fá aðra jólagjöf

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Njarðvíkingar ætla sér stóra hluti á nýja árinu.
Njarðvíkingar ætla sér stóra hluti á nýja árinu. vísir/vilhelm
Njarðvíkingar voru stórtækir fyrir jólin en í gær sömdu þeir við Bandaríkjamanninn Michael Craig um að spila með liðinu út tímabilið.

Craig er annar leikmaðurinn sem Njarðvík fær til sín fyrir átökin á nýju ári en í gær var greint frá því að leikstjórnandinn Oddur Rúnar Kristjánsson væri búinn að semja við þá grænklæddu.

Craig kemur í stað landa síns, Marquise Simmons, sem var sendur heim fyrr í mánuðinum.

Hinn 24 ára Craig er engin smásmíði en hann er 195 cm á hæð og vegur 110 kg. Hann er frá Phoenix í Arizona en lék með Southern Mississippi háskólanum og útskrifaðist þaðan í fyrra.

Á lokaári sínu í Southern Mississippi var Craig með 11,3 stig, 7,5 fráköst og 2,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var með frábæra skotnýtingu, eða 60,0%.

Njarðvíkingar sitja í 5. sæti Domino's deildarinnar með 14 stig eftir 11 umferðir. Njarðvík sækir Hött heim 7. janúar í fyrsta leik sínum á nýju ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×