Körfubolti

Drexler á lista Kobe yfir fimm bestu mótherjana á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Clyde Drexler og Michael Jordan.
Clyde Drexler og Michael Jordan. Vísir/Getty
Kobe Bryant er á sínu tuttugasta og síðasta tímabili í NBA-deildinni og bandarískir blaðamann sækja mikið í það að fá hann til að fara í gegnum ferillinn nú þegar frammistaða hans inn á vellinum er ekki mikið til að hrópa húrra fyrir.

Kobe Bryant hefur mætt mörgum frábærum leikmönnum á öllum þessum tíma og blaðamaður á ESPN fékk hann til að velja fimm bestu leikmennina sem Kobe hefur mætt á ferlinum.

Leikmenn sem komust ekki á listann eru menn eins og Karl Malone, John Stockton, Tim Duncan, Kevin Garnett Dwyane Wade eða Stephen Curry. Það er samt ekki mikið hægt að kvarta yfir lista Kobe.

Michael Jordan er þarna að sjálfsögðu en líka LeBron James og Kevin Durant. Það kemur kannski smá á óvart að Hakeem Olajuwon er á listaum frekar en Shaquille O´Neal en Kobe og Shaq voru aldrei miklir félagar.

Fimmta og síðasta nafnið er kannski það óvæntasta því Kobe valdi einnig Clyde Drexler. Ekki það að Clyde Drexler hafi ekki verið frábær leikmaður heldur frekar það að hann var orðinn 33 ára þegar Kobe Bryant kom inn í NBA og spilaði aðeins til ársins 1998.

Jordan var svo sem ekkert ungur heldur en átti tvö mögnuð ár á meðan Kobe spilaði sín fyrstu tímabil í NBA-deildinni.

Kobe sagði Baxter Holmes á ESPN að það væri mjög erfitt að velja bara fimm leikmenn frá árunum 1996 til 2015 sem segir sig nú sjálft.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×