Körfubolti

Coleman með mikla yfirburði í baráttu Bandaríkjamannanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Al'lonzo Coleman.
Al'lonzo Coleman. Vísir/Anton
Stjarnan og Njarðvík mætast í kvöld í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta og mun Stöð 2 Sport sýna leikinn beint frá Ásgarði í Garðabæ.

Stjarnan endaði fimm sætum ofar en Njarðvíkurliðið í deildarkeppninni og Garðbæingar unnu líka báðar viðureignir liðanna , með 10 stigum í Garðabæ og með 2 stigum í Njarðvík.

Það munaði mikið um framlög Bandaríkjamannsins Al'lonzo Coleman í innbyrðisleikjum liðanna og þá sérstaklega um það hversu miklu betri tölur Coleman var með miðað við bandaríska leikmanninn í liði Njarðvíkur.

Njarðvíkingar mættu með tvo mismundandi Kana í leikina en hvorugur þeirra náði sér á strik gegn Coleman og félögum í Stjörnunni.

Al'lonzo Coleman skoraði þannig 20 stigum meira (40-20) og tók 9 fráköstum meira (23-14) en Bandaríkjamennirnir í Njarðvík í tveimur deildarleikjum liðanna.

Coleman var ennfremur með framlag upp á samtals 59 í leikjunum tveimur en kanarnir í Njarðvík voru með samanlagt 36 stigum minna framlag (23) í þessum tveimur tapleikjum.

Framlag Bandaríkjamanna liðanna í leikjum Stjörnunnar og Njarðvíkur:

Coleman +20 Stig (40-20)

Coleman +9 Fráköst (23-14)

Coleman +5 Stoðsendingar (16-10)

Coleman +4 Stolnir boltar (5-1)

Coleman +36 Framlag (59-23)

Marquise Simmons (9 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar) lék fyrri leikinn fyrir Njarðvík og Jeremy Martez Atkinson (11 stig, 5 fráköst, 6 stoðsendingar) þann síðari.

Jeremy Martez Atkinson var með Stjörnumönnum í fyrravetur og mætir í kvöld í fyrsta sinn í Ásgarð síðan að hann samdi við Njarðvíkinga.

Það verður athyglisvert að fylgjast með Atkinson í kvöld en fyrri leikurinn á móti Stjörnunni var eini leikur hans í Domino´s deildinni í vetur þar sem hann náði ekki tuttugu í framlagi.

Atkinson var með 25,5 stig, 14,0 fráköst og 5,5 stoðsendingar að meðaltali í síðustu tveimur leikjum Njarðvíkinga og hefur hækkað framlag sitt í þremur leikjum í röð. Njarðvíkingar vita að ætli þeir að vinna Njarðvík þá þurfa þeir alvöru framlag frá Bandaríkjamanninum sínum.

Leikur Stjörnunnar og Njarðvíkur hefst klukkan 19.15 og verður í beinni á Stöð 2 Sport en Körfuboltakvöld frá Ásgarði hefst klukkan 18.30 og Kjartan Atli og félagar verða einnig í loftinu eftir leikinn.

Meðalskor Njarðvíkinga í leikjunum tveimur á móti Stjörnunni í vetur:

Maciej Stanislav Baginski 21,5

Oddur Rúnar Kristjánsson 21,0

Haukur Helgi Pálsson 20,0

Logi Gunnarsson 18,0

Bandaríkjamennirnir 10,0

(Marquise Simmons 9, Jeremy Martez Atkinson 11)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×