Körfubolti

Barnalegar NBA-stjörnur fengu báðir tæknivillu á sama tíma | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DeMarcus Cousins og Rajon Rondo rífast mikið við dómara og oft í einum kór.
DeMarcus Cousins og Rajon Rondo rífast mikið við dómara og oft í einum kór. Vísir/Getty
DeMarcus Cousins og Rajon Rondo eru liðsfélagar hjá Sacramento Kings í NBA-deildinni í körfubolta og  þeir eru báðir afar hæfileikaríkir körfuboltamenn.

Cousins og Rondo eru samt duglegri að komast í fréttirnar fyrir látalæti sín og vandræði inná sem utan vallar en fyrir að vinna saman körfuboltaleiki.

Gott dæmi um það var í blálokin á leik þeirra á móti Washington Wizards í nótt en Kings-liðið var þá fjórtán stigum yfir þegar aðeins sex sekúndur voru eftir af leiknum.

DeMarcus Cousins og Rajon Rondo fengu þá báðir tæknivillu á sama tíma í stað þess að leyfa tímanum að renna út og fagna góðum sigri. Þeir mótmæltu þá dómi með því að klappa kaldhæðnislega fyrir dómaranum Marc Davis um leið og þeir gengu í átt að honum.

Dómarinn sem heitir Marc Davis hikaði ekki og gaf þeim báðum tæknivillu. Þær voru afdrifaríkar þótt að þær breyttu engu um úrslit leiksins.

Þetta var önnur tæknivilla Rajon Rondo í leiknum og hann var því rekinn út úr húsi. Þetta var síðan sextánda tæknivillan á DeMarcus Cousins á tímabilinu sem þýðir að hann er á leið í leikbann.

DeMarcus Cousins og Rajon Rondo höfðu enga ástæðu til að láta svona enda búnir að vinna leikinn og skila flottum tölum.

DeMarcus Cousins var með 29 stig, 10 fráköst, 5 stolna bolta og 4 varin skot en Rajon Rondo skoraði 15 stig, gaf 11 stoðsendingar og stal 4 boltum.

Þeir voru tveir stigahæstu mennirnir í flottum sigri en enduðu leikinn engu að síður í fýlu og örugglega með óbragð í munninum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×