Körfubolti

Gríðarlegur munur á lokaúrslitareynslu KR og Hauka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson hefur tekið við Íslandsmeistarabikarnum undanfarin tvö ár.
Brynjar Þór Björnsson hefur tekið við Íslandsmeistarabikarnum undanfarin tvö ár. Vísir/Andri Marinó
KR og Haukar mætast í kvöld í fyrsta leik sínum í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn þegar lokaúrslit Domino´s deildar karla hefjast í DHL-höllinni í Frostaskjóli.

Leikur kvöldsins hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en Körfuboltakvöldið hefst klukkan 18.40.

KR-ingar hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn tvö ár í röð á sama kjarna en Haukarnir eru mættir í lokaúrslitin í fyrsta sinn í 23 ár.

Það þarf því ekki að koma mörgum á óvart að það er gríðarlegur munur á reynslu leikmanna liðanna í lokaúrslitunum.

Átta leikmenn KR hafa spilað leik í lokaúrslitum og allir hafa þeir orðið Íslandsmeistarar en aðeins einn leikmaður hefur upplifað það af leikmönnum Hauka.

Finnur Atli Magnússon er nefnilega eini leikmaður Hauka sem hefur spilað í lokaúrslitum eða unnið Íslandsmeistaratitilinn. Finnur á átta leiki að baki í úrslitaeinvígi en hann vann titilinn með KR bæði 2011 og 2015.

Þjálfarar Hauka hafa hinsvegar kynnst þessum kringumstæðum, þjálfarinn Ívar Ásgrímsson var í stóru hlutverki þegar Haukar urðu Íslandsmeistarar 1988 og lék einnig með liðinu í úrslitunum 1985. Aðstoðarþjálfarinn Pétur Ingvarsson lék með Haukaliðinu í lokaúrslitunum 1993.

Ívar og Pétur eiga saman átta leiki í lokaúrslitum eða jafnmarga og allir leikmenn þeirra til saman. Finnur Atli á eins og áður sagði alla þá leiki. Ívar og Pétur hafa hinsvegar hvorugur stýrt liði í úrslitaeinvígi karla en Ívar fór tvisvar með Stúdínur í lokaúrslitin hjá konunum.

Brynjar Þór Björnsson og Darri Hilmarsson hafa báðir leikið 21 leik í lokaúrslitum sem er það mesta hjá KR-liðinu. Brynjar hefur spilað þá alla fyrir KR en Darri hefur spilað fjóra af þeim fyrir Þór úr Þorlákshöfn. Helgi Már Magnússon og Pavel Ermolinskij hafa líka mikla reynslu af lokaúrslitum.

Lokaúrslitareynsla leikmanna KR - 84 leikir

Brynjar Þór Björnsson - 21 leikur

Darri Hilmarsson - 21 leikur

Helgi Már Magnússon - 13 leikir

Pavel Ermolinskij - 12 leikir

Vilhjálmur Kári Jensson - 5 leikir

Björn Kristjánsson - 4 leikir

Michael Craion - 4 leikir

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson - 4 leikir

Lokaúrslitareynsla leikmanna Hauka - 8 leikir

Finnur Atli Magnússon - 8 leikur






Fleiri fréttir

Sjá meira


×