Körfubolti

Steph Curry setti nýtt NBA-stigamet í endurkomuleiknum sínum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Stephen Curry setti nýtt stigamet í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar hann skorað 17 stig í framlengingunni þegar Golden State Warriors vann Portland Trail Blazers 132-125 á útivelli.

Enginn NBA-leikmaður, í deild né úrslitakeppni, hefur skorað meira í einni framlengingu en Curry gerði í nótt.

Allt lið Portland Trail Blazers skoraði þremur stigum minna en Curry í framlengingunni og Curry skoraði líka meira en bæði lið Miami Heat og Toronto Raptors gerðu samanlagt í sinni framlengingu.

 

Steph Curry skoraði alls 27 af 40 stigum sínum í fjórða leikhluta og framlengingu en hann spilaði mun meira en hann átti að gera þar sem að Shaun Livingston var rekinn út úr húsi fyrir mótmæli.

Shaun Livingston byrjaði í forföllum Steph Curry en Curry kom fyrst inn af bekknum eftir sex mínútur þegar staðan var orðin 16-2 fyrir Portland-liðið.

Curry varð aðeins annar leikmaðurinn í NBA síðustu þrjá áratugi sem nær að skora 40 stig eftir að hafa byrjað leikinn á bekknum.

Curry var vissulega kaldur í byrjun leiksins og klikkaði meðal annars á fyrstu níu þriggja stiga skotum sínum. Hann hitti hinsvegar úr fimm af síðustu sjö.



Stig í framlengingum næturinnar í NBA:

Stephen Curry - 17 stig

Portland Trail Blazers - 14 stig

Toronto Raptors og Miami Heat til samans - 15 stig

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×