Íslenski boltinn

Styrkir FH stöðu sína á toppnum?

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Atli Guðnason skýtur að marki í leik liðanna í Kaplakrika í fyrra
Atli Guðnason skýtur að marki í leik liðanna í Kaplakrika í fyrra vísir/stefán
Einn leikur er í Pepsí deild karla í fótbolta í dag. FH tekur á móti Víkingi Reykjavík í fyrsta leik 10. umferðar í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 16.

FH hefur unnið þrjá 1-0 sigra í deildinni í röð og er með eins stigs forystu á Fjölni í efsta sæti deildarinnar.

Víkingur er í 8. sæti með 11 stig en athygli vekur að bæði lið hafa aðeins skorað 12 mörk til þessa í sumar en FH er með lang bestu vörnina fram til þessa. Liðið hefur aðeins fengið 4 mörk á sig á meðan Víkingur hefur tíu sinnum þurft að sækja boltann úr netinu.

Í síðustu fjórum leikjum sínum hefur Víkingur skipst á að vinna og tapa en liðið tapaði 1-0 fyrir Fylki í síðustu umferð.

Víkingur er fjórum stigum frá fallsæti og þarf að sækja sigur í Kaplakrika til að koma sér í þægilega fjarlægð frá fallbaráttunni og um leið nálgast efri hluta deildarinnar í jafnri deild.

FH vann báða leiki liðanna í deildinni í fyrra 1-0 og hefur alls unnið fimm síðustu deildarleiki liðanna.

Víkingur vann FH síðast í deildinni í júní 1998 en síðan þá hefur FH unnið 9 leiki og fimm sinnum hafa liðin gert jafntefli.

Útsending Stöðvar 2 Sport frá leiknum hefst klukkan 15:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×