Íslenski boltinn

Gary Martin er ekki til sölu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Víkingar hafa ekki heyrt af áhuga Vals á enska framherjanum Gary Martin og ekkert tilboð hefur borist að sögn Heimis Gunnlaugssonar, formanns meistaraflokksráðs hjá Pepsi-deildarliðinu.

Fótboltavefurinn 433.is heldur því fram að Valsmenn vilji fá Gary Martin í sínar raðir þegar félagaskiptagluginn opnar eftir tvo daga og samkvæmt heimildum vefsins er Valur að undirbúa tilboð í framherjann.

Gary gekk í raðir Víkinga frá KR í vetur og er búinn að skora fjögur mörk í tíu deildarleikjum fyrir liðið.

„Það hefur ekkert tilboð borist og ég hef ekkert heyrt af þessu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri eitthvað um þetta. Gary Martin er ekki til sölu,“ segir Heimir Gunnlaugsson í samtali við Vísi.

Valsmenn virðast ætla að styrkja liðið sitt hressilega í glugganum en það er búið að ganga frá samningum við tvo danska leikmenn og þá er liðið að fá til sín Sveinn Aron Guðjohnsen eins og kom fram fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×