Fótbolti

Aftur tapaði Þór fyrir Suðurnesjaliði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hörður Sveinsson skoraði sigurmarkið í kvöld.
Hörður Sveinsson skoraði sigurmarkið í kvöld. vísir/stefán
Keflavík vann annan leikinn sinn í röð í Inkasso-deild karla í fótbolta í kvöld þegar liðið lagði Þór á Akureyri, 2-1.

Keflavík var fyrir þessa tveggja leikja sigurhrinu án sigurs í fjórum leikjum á undan því en liðið var að gera of mikið af jafnteflum.

Sigurbergur Elísson skoraði fyrra mark Keflavíkur á sjöundu mínútu en þetta er sjöunda markið hans í sumar. Sigurbergur hefur verið einn albesti leikmaður Inkasso-deildarinnar í sumar en hann lagði upp fyrra mark Keflavíkur í sigrinum gegn Leikni F. í síðustu umferð.

Þar lagði Sigurbergur upp á Magnús Þóri Matthíasson sem launaði honum greiðan í byrjun leiks í dag. Hörður Sveinsson kom Keflavík svo í 2-0 á 29. mínútu og þannig stóð þar til Gunnar Örvar Stefánsson minnkaið muninn í 2-1 á 76. mínútu leiksins fyrir Þór.

Gestirnir héldu út og unnu mjög sterkan sigur á erfiðum útivelli en Þórsarar voru fyrir leikinn í öðru sæti deildarinnar og gætu reyndar haldið öðru sætinu. Það fer eftir úrslitunum í leik KA og Grindavíkur.

Þórsarar voru búnir að vinna fimm leiki í röð í deildinni áður en liðið fékk svakalegan 5-0 skell gegn Grindavík í síðustu umferð á útivelli og nú aðra umferðina í röð tapa norðanmenn gegn Suðurnesjaliði.

Keflavík er nú með 17 stig eftir tíu umferðir líkt og Grindavík sem er að keppa þessa stundina en Þór er með 19 stig og búið að hleypa Suðurnesjaliðunum inn í toppbaráttuna.

Upplýsingar um markaskorara fengnar frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×