Íslenski boltinn

Emil: Sem betur fer datt boltinn á hausinn á mér

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Emil Pálsson í leik með FH
Emil Pálsson í leik með FH visir/marinó
Emil Pálsson tryggði FH 1-0 sigur á Fjölni í kvöld í 15. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta með marki rétt eftir að hann kom inná sem varamaður.

„Ég held það sé ekki hægt að eiga betri innkomu heldur en þetta. Koma inn og skora með fyrstu snertingu. Það verður ekki betra,“ sagði Emil strax eftir leik.

„Ég er yfirleitt með mitt svæði í hornum og ég fór bara í það og sem betur fer datt boltinn á hausinn á mér og ég náði að setja hann í netið.“

Emil lék um tíma á síðustu leiktíð með Fjölni á láni frá FH og kann hann einkar vel við sig á Extra-vellinum í Grafarvogi.

„Mér líður vel í Grafarvogi. Það var mjög gott að koma hingað til baka þó ég hefði viljað spila meira. En ég er ánægður með að hafa náð að setja mark mitt á leikinn.“

Emil var valinn leikmaður síðustu leiktíðar en varð að sætta sig við að byrja leikinn í dag á bekknum. Hann meiddist lítillega í síðasta leik gegn KR en hann sagði það ekki hafa haft neitt með það að gera.

„Ég get ekki sagt það. Við höfum verið upp og niður og hann (Heimir Guðjónsson þjálfari) hefur verið að hræra í liðinu og ég tek bara þeirri uppstillingu sem hann ákveður. Ég reyni bara að koma sterkur af bekknum og gera eitthvað,“ sagði Emil sem stóð við þau orð í leiknum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×