Íslenski boltinn

Þórður Þorsteinn: Auðveldara að fara í vinnuna á morgun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þórður Þorsteinn Þórðarson og félagar í ÍA.
Þórður Þorsteinn Þórðarson og félagar í ÍA. Vísir/Ernir
Þórður Þorsteinn Þórðarsson leikmaður Skagamanna var kamkapátur í leikslok eftir góðan 3-0 sigur heimamanna á Víkingi Ólafsvík í Pepsi-deild karla í kvöld. Opnaði hann markareikning sinna manna í kvöld og var ógnandi í nýrri stöðu ofar á vellinum.

„Ég var alltaf framar á vellinum þegar ég var í yngri flokkunum ég hef alltaf vonast eftir því að koma framar á völlinn og ég nýtti tækifærið bara ágætlega,“ segir Þórður sem er betur þekktur sem bakvörður með liði sínu ÍA.

Mark hans var afar laglegt en hann keyrði inn í teiginn af hægri kantinum áður en að hann smellti boltanum í stöngina og inn.

„Ég er búinn að æfa þetta alla vikuna þannig að það er fínt að koma þessu yfir í leikina líka,“ segir Þórður sem vonast til þess að gera hægri kantstöðuna að sinni eigin.

„Hallur er búinn að standa sig frábærlega í hægri bak og það væri fáránlegt að ætla sér að breyta því núna. Jón Vilhelm er meiddur og ég vann mig inn í liðið á kantinum.“

Skagamenn hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum gegn Víkingi Ólafsvík að undanförnu auk þess sem að liðið tapaði síðustu tveimur leikjum á undan leiknum í kvöld. Segir Þórður að það verði mun auðveldara að mæta í vinnuna á morgun eftir leik kvöldsins.

„Það er mikill léttir. Ég vinn við það að fara í fyrirtækin hérna og það er drullað yfir mann þegar við töpum en það verður gaman að mæta í vinnuna á morgun,“ sagði kátur Þórður sem valinn var maður leiksins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×