Íslenski boltinn

Gamli skólinn í öllu sínu veldi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fyrirliðarnir með bikarinn sem verður barist um í dag.
Fyrirliðarnir með bikarinn sem verður barist um í dag. vísir/eyþór
Valur og ÍBV mætast í úrslitaleik Borgunarbikars karla á Laugardalsvelli klukkan 16:00 í dag. Valsmenn eru ríkjandi bikarmeistarar en þeir unnu sannfærandi sigur á KR í bikarúrslitaleiknum í fyrra. Eyjamenn eru aftur á móti að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik síðan árið 2000.

Á hliðarlínunni mætast tveir reynsluboltar og elstu þjálfararnir í Pepsi-deild karla, Ólafur Jóhannesson og Bjarni Jóhannsson. Þeir eru báðir að fara í sinn fimmta bikar­úrslitaleik og árangurinn er sá sami; tveir sigrar og tvö töp. Ólafur, sem er 59 ára, fór fyrst í bikarúrslit með FH árið 1991.

Tólf árum síðar fór Ólafur aftur með FH í bikarúrslit en það var ekki fyrr en 2007 sem Ólafur vann loks bikarinn með FH, í þriðju tilraun. Í fyrra bætti hann svo öðrum bikarmeistaratitli á ferilskrána.

„Þetta er stærsti leikur ársins og það er frábært að taka þátt í honum,“ sagði Ólafur í samtali við Fréttablaðið á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í tilefni af bikar­úrslitahelginni.

„Við þurfum að eiga góðan leik og leggjum upp með það. Þetta er svona spennustigsleikur og það er spurning hvernig spennustigið hjá leikmönnum verður. Það hefur oft ráðið úrslitum,“ sagði Ólafur. „Við stefnum að því að undirbúa okkar leikmenn þannig að þeir njóti þess að spila.“

Gengi Vals í Pepsi-deildinni í sumar hefur verið brösótt en liðið er í 6. sæti með 19 stig eftir 14 umferðir. Valsmenn hafa hins vegar verið öflugir í bikarkeppninni en þeir fóru erfiða leið í úrslitaleikinn og unnu m.a. Fjölni og Víking R. á útivelli.

Sömu sögu er að segja af Eyjamönnum sem fóru á Samsung-völlinn í Garðabæ í 16-liða úrslitunum og á Kópavogsvöllinn í 8-liða úrslitunum og unnu góða sigra á Stjörnunni og Breiðabliki. Í undanúrslitunum bar ÍBV svo sigurorð af Íslandsmeisturum FH á heimavelli.

„Við höfum náð upp bikarstemningu, farið á mjög erfiða útivelli og fengum toppliðið í heimsókn í undanúrslitunum,“ sagði Bjarni. „Við þurfum að halda góðu spennustigi og kjarki og krafti í mönnum.“

Bjarni, sem fagnaði 58 ára afmæli sínu á nýársdag, er kominn með Eyjamenn í bikarúrslit í þriðja sinn en hann gerði ÍBV að bikarmeisturum 1998. Eyjamenn unnu þá Leiftur 2-0 í úrslitaleik með mörkum bræðranna Steingríms og Hjalta Jóhannessona. Síðan þá hefur ÍBV ekki unnið bikarinn.

„Vonandi verður sama stuðið í kringum þetta núna og var þá. Það er alltaf magnað að komast í bikarúrslit,“ sagði Bjarni sem vann bikarinn með Fylki 2001 og var svo þjálfari Stjörnunnar þegar liðið tapaði fyrir KR í bikarúrslitum fyrir fjórum árum.

Aðalvandamál Eyjamanna í sumar hefur verið að skora mörk en þeir hafa aðeins gert 13 mörk í 14 leikjum í Pepsi-deildinni. Það voru þó batamerki á sóknarleiknum í leiknum á móti Víkingi Ó. á sunnudaginn þótt ÍBV hafi einungis skorað eitt mark. Það gerði Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem er að komast á ferðina eftir erfið meiðsli.

„Það er vika á milli leikja þannig að ég á von á því að hann verði klár á laugardaginn. Hann hefur spilað lítið í sumar en við sáum í leiknum í Ólafsvík að hann er góður leikmaður og hjálpar okkur klárlega,“ sagði Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×