Íslenski boltinn

KA Inkasso-meistari | HK hélt sæti sínu | Fjarðabyggð féll

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
KA tryggði sér sigur í Inkasso-deildinni
KA tryggði sér sigur í Inkasso-deildinni vísir/stefán
KA tryggði sér sigur í Inkasso-deildinni í fótbolta í dag þegar liðið lagði Grindavík 2-1 á heimavelli í uppgjöri tveggja efstu liðanna.

Bæði KA og Grindavík voru komin upp og aðeins spurning um hvort liðið myndi hampa sigrinum í deildinni. Grindavík þurfti sigur til að minnka forystu KA í eitt stig en KA tryggði sér sigurinn þegar ein umferð er eftir í deildinni.

Andri Rúnar Bjarnason kom Grindavík yfir fyrir hálfleik en Ásgeir Sigurgeirsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson tryggðu KA sigurinn og deildarmeistaratitilinn.

HK hélt sætinu og Fjarðabyggð féll

Heil umferð var í dag og tryggði HK sér sæti í deildinni á næsta tímabili með því að leggja Huginn 4-0 á útivelli.

Teitur Pétursson kom HK yfir á 19. mínútu og var HK 1-0 yfir í hálfleik. Kristófer Eggertsson bætti öðru marki við á 71. mínútu, Ragnar Leósson skoraði á 85. mínútu og Bjarni Gunnarsson fjórða markið fjórum mínútum síðar.

Fjaðarbyggð tapaði 2-1 fyrir Fram á útivelli og féll því niður í 2. deild.  Fjarðabyggð varð að vinna til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni og komst liðið yfir með marki Dimitrov Zelkjo á 62. mínútu.

Ivan Parlov á 76. og 90. mínútu tryggði Fram sigurinn og felldi Fjarðabyggð.

Leiknir Fáskrúðsfirði vann Leikni frá Reykjavík. 1-0. Leiknir F. á því enn tölfræðilegan möguleika á að halda sæti sínu í deildinni en liðið þarf að vinna HK stórt í síðustu umferðinni og treysta á að Huginn tapi stórt fyrir Selfossi því Huginn er með sjö mörkum betri markamun þegar þremur stigum munar á liðunum.

Í hinum leikjum dagsins gerðu Haukar og Selfoss 1-1 jafntefli og Keflavík og Þór 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×