Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Heyrðum meira í Gumma Ben en áhorfendum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA
Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA vísir/ernir
Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Skagamanna, var ekki ánægður eftir tap ÍA gegn KR í kvöld og segir að sínir menn hafi ekki spilað vel.

„Við náðum ekki þessum þéttleika og þessari stemmningu sem hefur einkennt okkar spilamennsku undanfarið,“ en Skagamenn hafa náð undraverðum árangri miðað við byrjun tímabilsins en í síðustu ellefu leikjum hefur liðið sigrað í átta. í kvöld komust Skagamenn þó varla í gang gegn öflugi liði KR.

„Við náðum ekki þessari hollningu upp og vorum ekki nógu nálægt þeim varnarlega. Við fáum kannski einhver færi en nýtingin á þeim var eftir gangi leiksins,“ segir Gunnlaugur um spilamennsku Skagamanna en hann segir allt tal um Evrópusæti, líkt og bjartsýnustu menn voru farnir að minnast á, vera fjarri mönnum á Akranesi.

„Ég held að við einbeitum okkur bara að sigri í næsta leik. Við skoðum ekki Evrópusæti fyrr en í fyrsta lagi eftir næsta leik. Ef hann vinnst metum við stöðuna,“ segir Gunnlaugur sem fannst lítið rætt um þennan slag stórvelda í íslenskri knattspyrnu í aðdraganda leiksins.

„Mér fannst stemmningin yfir þessum leik þannig að það heyrðist lítið um hann. Við á bekknum heyrðum meira í Gumma Ben sem var að lýsa hér fyrir ofan okkur en í áhorfendunum. Það er ekki eins og maður á að venjast í þessum leikjum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×