Körfubolti

Bjóða Tim Duncan velkominn í ljúfa lífið | Sjáið þessa auglýsingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan.
Tim Duncan. Vísir/Getty
Tim Duncan lagði skóna á hilluna í sumar eftir magnaðan nítján ára feril með San Antonio Spurs í NBA-deildinni þar sem hann varð meðal annars NBA-meistari fimm sinnum.

Duncan spilaði allan feril sinn með liði San Antonio Spurs sem tók hann með fyrsta valrétti í nýliðavalinu 1997.

Tim Duncan varð NBA-meistari með San Antonio Spurs 1999, 2003, 2005, 2007 og 2014 og náði því að vera kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar tvö ár í röð frá 2002 til 2003.

Tim Duncan varð fertugur síðasta vor og gaf greinilega eftir á síðasta tímabili. Það kom því ekkert sérstaklega á óvart að hann hafi ákveðið að setja skóna upp á hillu.

Stórmarkaðurinn HEB í San Antonio er einn af stóru styrktaraðilum San Antonio Spurs en fyrirtækið rekur yfir 350 verslanir í Texas og norðaustur Mexíkó.

Leikmenn Spurs hafa verið duglegir að koma fram í auglýsingum á vegum HEB og Tim Duncan fer á kostum í nýrri auglýsingu þar sem koma einnig fram margar af goðsögnum San Antonio Spurs í gegnum tíðina.

Leikmenn eins og David Robinson, Sean Elliott og George Gervin bjóða Duncan þá velkominn í ljúf lífið hjá eftirlaunaþegum Spurs-liðsins. Treyjur þeirra Robinson, Elliott og Gervin eru allar komnar upp í rjáfur hjá Spurs og treyja Duncan verður þar einnig áður langt um líður.

Það er hægt að sjá þessa skemmtilegu auglýsingu hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×