Körfubolti

Matthías Orri: Líður eins og við getum ekki unnið

Smári Jökull Jónsson í Hellinum skrifar
Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur ÍR-inga í kvöld með 20 stig.
Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur ÍR-inga í kvöld með 20 stig. vísir/ernir
Matthías Orri Sigurðarson átti fínan leik fyrir ÍR í kvöld sem dugði þó ekki til í þriggja stiga tapi gegn Grindavík. Matthías var gagnrýninn á ÍR-liðið í leikslok.

„Þetta er mjög svekkjandi og bara lélegt. Ef við ætlum að gera eitthvað í þessari deild þá þurfum við að vinna lið eins og Grindavík. Þó þeir séu með mjög sterkan mannskap þá eigum við að vinna á heimavelli. Við verðum að verja heimavöllinn. Mér líður eins og við getum ekki unnið, þetta er fáránlegt,“ sagði svekktur Matthías í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Matthías sagði ÍR liðið einfaldlega ekki hafa mætt til leiks í upphafi og kallaði eftir að þeir myndu spila vel í 40 mínútur í leikjum.

„Það var eins og við nenntum ekki að spila í fyrri hálfleik, það vantaði orku og gleði í þetta. Það voru allir að gera hluti sem þeir áttu ekki að vera að gera og að spila út úr hlutverki. Við fórum yfir hlutina í hálfleik og vorum grimmari varnarlega. Það gengur ekki að spila annan helminginn af leiknum og ef við ætlum alltaf að gera það þá verðum við í þessu harki lengst niðri,“ bætti Matthías við.

ÍR er með 4 stig eftir fimm leiki í deildinni og Matthías svaraði játandi þegar hann var spurður hvort byrjunin væri vonbrigði.

„Já, þetta eru vonbrigði. Við ættum að vera með 6 stig og verðum að klára svona leiki. Við vorum með einhverjar yfirlýsingar fyrir mót og verðum að klára leiki sem þennan. Á móti Stjörnunni vorum við tuttugu stigum yfir í þriðja leikhluta og eigum einfaldlega að klára það.“

Það hefur aðeins verið talað um stemmningsleysi á pöllunum hjá ÍR en stuðningsmenn þeirra létu vel í sér heyra í kvöld, sérstaklega undir lokin.

„Það er alltaf stemmning hérna í Breiðholtinu. Við þurfum bara að spila fyrir þessa stuðningsmenn og það er oft sem við gerum ekki neitt. Þeir kveikja í sér um leið og við sýnum eitthvað inni á vellinum, þegar við sýnum smá orku og karakter."

"En þangað til þá eru þeir hljóðir og ég skil það bara vel. Þeir mæta alltaf hingað til að styðja okkur og við mætum í annan hvern leik. Það er ekki boðlegt,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×