Körfubolti

Breytingar í vændum hjá ÍR: Þurfum kraftmeiri leikmann undir körfuna

Ingvi Þór Sæmundsson í Schenker-höllinni að Ásvöllum skrifar
Borce var ekki ánægður með framlag sumra leikmanna ÍR í kvöld.
Borce var ekki ánægður með framlag sumra leikmanna ÍR í kvöld. vísir/stefán
Borce Ilievski, þjálfari ÍR, var afar ósáttur við frammistöðu sinna manna í tapinu fyrir Haukum í kvöld. Hann segir að ÍR-ingar þurfi að gera breytingar og íhugar að skipta um bandarískan leikmann.

„Við getum alltaf gert betur. Sumir leikmannanna lögðu sig ekki nógu mikið fram,“ sagði Borce sem hrósaði yngri leikmönnum ÍR fyrir að laga stöðuna í 4. leikhluta sem Breiðhyltingar unnu með 15 stigum.

„Leikurinn tapaðist í fyrri hálfleik en við reyndum að koma til baka með því að stilla upp óhefðbundnu byrjunarliði. Ég veit að við getum kannski ekki skorað 70-75 stig því Matti [Matthías Orri Sigurðarson] var ekki með en við eigum alltaf að geta lagt okkur fram og spilað góða vörn. Það var ekki nógu mikil löngun til staðar hjá sumum leikmönnum,“ sagði Borce.

Matthew Hunter hefur ekki staðið undir væntingum hjá ÍR og Borce segist vera að íhuga að fá nýjan Bandaríkjamann, og þá aðra tegund af leikmanni.

„Við þurfum að ræða það við stjórnina. Við þurfum að gera breytingar og erum að hugsa um þetta. Við þurfum að finna góðan kost, ekki bara skipta til þess eins að skipta,“ sagði þjálfarinn.

„Við erum að íhuga þetta. Við misstum Stefán [Karel Torfason] og eins þú sást í dag tóku Haukar mikið af sóknarfráköstum. Við vorum mjög veikir undir körfunni og þurfum klárlega meiri kraft inni í teiginn. Við erum að hugsa um að fá sterkari og kraftmeiri leikmann,“ sagði Borce að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×