Lífið

Fulltrúi Rússa má taka þátt í Eurovision í gegnum gervihnött

Birgir Olgeirsson skrifar
Julia Samoilova, fulltrúi Rússa í Eurovision í ár.
Julia Samoilova, fulltrúi Rússa í Eurovision í ár. Vísir/EPA
Fulltrúi Rússa í Eurovision má taka þátt í keppninni í ár með því að syngja frá Rússlandi í beinni útsendingu og verður þá flutningur hennar sjónvarpaður í höllinni í Kænugarði í gegnum gervihnött.

Keppandinn er söngkonan Julia Samoilova sem hefur verið bannað að koma til Úkraínu, þar sem keppnin mun fara fram í Kænugarði dagana 9. til 13. maí næstkomandi.

Yfirvöld í Úkraínu höfðu gefið út að Samoilova væri á bannlista fyrir að hafa komið fram á tónleikum á Krímskaga í fyrra, en miklar deilur hafa verið á milli Rússa og Úkraínumanna eftir að Rússar réðust inn á Krímskaga fyrir þremur árum og tóku hann fyir.

Því lá fyrir að Samoilova myndi ekki keppa í Eurovision í ár en samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem ítrekað er að keppnin verði að vera laus við alla pólitík.

Hefur verið lögð sáttatillaga af hálfu EBU þess efnis að Samoilova fái að taka þátt, en ekki í Úkraínu, heldur þannig að hún syngi á svið í Rússlandi og flutningur hennar verði þannig sýndur í Kænugarði í gegnum gervihnattaútsendingu. Yrði það í fyrsta skiptið í sextíu ára sögu Eurovision sem það yrði gert.

Samoilova verður í seinni undanriðli Eurovision, fimmtudagskvöldið 11. maí, en fari svo að hún komist í úrslitin verður sama fyrirkomulag á flutningi hennar laugardaginn 13. maí.

Rússar höfðu biðlað til yfirvalda í Úkraínu að endurskoða ákvörðun sína um að meina Samoilova frá því að koma til Úkraínu.

Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri EBU, segir samtök evrópskra sjónvarpsstöðva í viðræðum við úkraínsk yfirvöld með það í huga að allir keppendur fái að flytja lög sín í Kænugarði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×