Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Danmörk 14-29 | Danir nokkrum númerum of stórir

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arna Sif Pálsdóttir, línumaður Íslands.
Arna Sif Pálsdóttir, línumaður Íslands. vísir/ernir
Danir rúlluðu hreinlega yfir okkur Íslendinga, 29-14, í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Frakklandi á næsta ári. Íslenska liðið skoraði aðeins fjögur mörk í fyrri hálfleik og átti liðið aldrei möguleika.

Arna Sif Pálsdóttir og Lovísa Thompson gerðu báðar þrjú mörk fyrir Ísland en Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 11 skot í markinu og átti ágætan leik.

Mette Tranborg var atkvæðamest í liði Dana með átta mörk.

Af hverju vann Danmörk? Svarið við þeirri spurningu er mjög auðvelt. Danska liðið er eitt það allra besta í heiminum og því miklu betra en það íslenska. Það er mikill stærðarmunur á leikmönnum liðanna og þær íslensku áttu í vandræðum með þær dönsku frá fyrstu mínútu. Þær spila betur saman sem lið og nýta sín færi mjög vel.  

Hvað gekk vel? Það má taka nokkra jákvæða hluti úr leik íslenska liðsins þrátt fyrir stórt tap. Liðið var án margra lykilmanna og ungir óreyndir leikmenn eru að stíga upp. Hin átján ára, Lovísa Thompson, stjórnaði spilinu, vel á köflum og Guðrún Ósk Maríasdóttir varði vel. Guðrún varði oft á tíðum algjör dauðafæri og hefði staðan getað verið mun verri í hálfleik ef hún hefði ekki verið að finna sig í markinu.

Hvað gekk illa? Þegar íslenska liðið mætir svona stórþjóð í handbolta þá verða leikmenn liðsins að skora úr dauðafærum. Það gekk alls ekki upp í dag og voru leikmenn liðsins oft á tíðum einfaldlega að skjóta í markmann danska liðsins. Það þarf síðan að slípa betur saman sóknarleik liðsins.

Guðrún: Maður verður bara betri á móti svona liði„Það er fínt að eiga ágætisleik á móti Dönum,“ segir Guðrún Ósk Maríasdóttir sem varði 11 skot í markinu í leiknum.

„Það kveikir heldur betur í manni að spila á móti svona sterkum leikmönnum og ef maður getur ekki nýtt sér það til að verða betri í handbolta þá veit ég ekki hvað gerir það.“

Guðrún segist hafa undirbúið sig mjög vel fyrir leikinn í dag.

„Við vorum búin að fara vel yfir þetta. Leikmenn eiga alltaf sín uppáhalds horn og það er ekkert öðruvísi við þetta lið og einhver önnur.“

Axel: Ungar stelpur að fá gríðarlega mikilvægar mínútur„Sóknarlega erum við ekki nægilega góðar og það sem er verst í þessu er að við erum ekki að nýta færin okkar nægilega vel,“ segir Axel Stefánsson, þjálfari íslenska landsliðsins, eftir tapið í dag.

Hann segir að það sé mjög dýrt á móti liði eins og því danska að skjóta oft beint í markvörðinn.

„Þegar við náum að komast í vörn og stilla upp þá erum við að spila mjög vel og ég var oft virkilega ánægður með varnarleikinn. Við erum síðan auðvitað í vandræðum með að komast í gegn um þessa leikmenn sem eru um 190 sentímetrar og mun sterkari.“

Lykilmenn íslenska landsliðsins eru margir fjarverandi vegna meiðsla.

„Það eru mjög ungar stelpur hérna í dag sem eru að fá alveg gríðarlega mikilvæga reynslu og mínútur. Þær fara með þetta allt inn í reynslubankann. Þetta mun síðan bara auka okkar breidd þegar hinar verða komnar til baka.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira