Umfjöllun og viðtöl: Þór Þorl. - Grindavík 83-104 | Auðvelt hjá Grindavík í Þorlákshöfn

Bullock í leik með Grindavík.
Bullock í leik með Grindavík. Mynd/Stefán
Grindavík sigldi nokkuð þægilegum sigri í höfn á Þór Þorlákshöfn í fyrstu umferð Dominos-deildar karla eftir jólafrí í kvöld. Lokatölur urðu 104-83 eftir að Grindavík hafði leitt með 23 stigum strax í hálfleik, 56-33.

Grindavík byrjaði leikinn af krafti, en töggur var í Þórsurum framan af fyrsta leikhluta. Grindvíkingar breyttu stöðunni úr 11-11 í 11-20 og þar með skildu leiðir. Þristunum rigndi og eftir fyrsta leikhluta höfðu ellefu þristar litið dagsins ljós, en Grindavík hafði náð góðu forskoti og var ellefu stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 35-21.

Þeir héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta. Framan af öðrum leikhluta virtist hugur aftur í Þórsurum, en þegar lykilmenn fóru að þreytast lentu þeir í vandræðum. Grindavík gat rúllað vel á sínu liði og menn komu með góðar innkomur af bekknum. Staðan 56-33 fyrir Grindavík í hálfleik.

Eftirleikurinn varð tiltölulega auðveldur fyrir Grindavík. Í þriðja leikhluta hittu Þórsarar ekki neitt og gestirnir gengu á lagið. Þeir voru að láta boltann rúlla afskaplega vel sóknarlega og margir voru að skila inn stigum og góðum körfum.

Fjórði leikhlutinn var svo bara hálfgert formsatriði að klára enda gestirnir með 28 stiga forskot fyrir síðasta leikhlutann, 82-54. Þeir sigldu sigrinum, eins og áður segir, nokkuð þægilega í hús, en breidd og gæði gerðu út um þennan leik. Lokatölur 104-83.

Afhverju vann Grindavík?

Grindavík var einfaldlega bara mikið sterkari aðilinn í kvöld frá því um miðjan fyrsta leikhluta. Þeir voru að spila góðan sóknarbolta þar sem boltinn fékk að rúlla mjög vel gegn hvaða svæðisafbrigi gestirnir hentu í. Þeir spiluðu einnig ágætis varnarleik og höfðu einfaldlega úr fleiri mönnum að spila en Þór. Gæðin voru mikil í breiddinni og eftirleikurinn varð tiltölulega auðveldur. Góður sigur Grindvíkinga og mikilvægur í þeirri baráttu sem þeir eru, en laskaðir Þórsarar lentu í afar miklum vandræðum.

Hverjir stóðu upp úr?

Nathan Bullock þeytti frumraun sína í kvöld og gerði afar vel miðað við fyrsta leik. Hann skoraði 19 stig, tók sjö fráköst og  gaf tvær stoðsendingar. Margir leikmenn voru að leggja í púkkinn hjá Grindavík, til að mynda Ólafur Ólafsson (18 stig og 7 fráköst) og Dagur Kár Jónsson (17 stig og 6 stoðsendingar). Góð breidd Grindavíkur.

Hjá Þórsurum stóð Halldór Garðar Hermannsson upp úr. Hann skoraði 24 stig, tók sex fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Hann hefði þurft meiri aðstoð, en Halldór reyndi þó. DJ Balentine reyndi og gerði 24 stig, en hann hafði hægt um sig framan af.

Tölfræðin sem vakti athygli

Þegar litið er til tapaða bolta myndi maður ekki halda að munurinn hefði verið eins mikill og hann var. Þórsarar töpuðu einum bolta fleiri en Grindavík. Gestirnir hittu þó mun betur fyrir utan þriggja stiga línuna en heimamenn, eða 43% (16/37) gegn 20% (6/29). Það munar um tíu þriggja stiga körfur, en Þórsarar hittu fimm af þriggja stiga körfum sínum í fyrsta leikhluta.

Hvað gerist næst?

Grindvíkingar fá einn dag í hvíld, en þeir spila strax á sunnudaginn gegn Haukum að Ásvöllum. Rosalegur leikur þar sem verður í beinni á Stöð 2 Sport. Þórsarar fá kærkominn einn dag í viðbót í frí og spila á mánudagskvöldið gegn Njarðvík.

Jóhann: Einn mesti eðal náungi sem ég hef komist i kynni við

„Já og nei,” sagi Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, aðspurður um hvort sigurinn í kvöld hafi verið auðveldari en hann átti von á fyrir leikinn.

„Við vorum bara hörkugóðir, sérstaklega í öðrum leikhluta. Varnarleikurinn mjög góður og þokkalegt rúll í sókninni. Þeir voru náttúrulega laskaðir og allt það, en já og nei.

Gott boltaflæði var í sókninni og margir leikmenn sem voru að skila inn góðu dagsverki í Grindavíkurliðinu í dag.

„Það kom mér á óvart hvað við við vorum slípaðir vegna þess að við erum komnir með nýjan mann og frammistaðan var mjög góð. Góður sigur.”

Fyrir leikinn sagði Jóhann í viðtali að það væru kannski einhverjar líkur á að liðið yrði eitthvað ryðgað í leiknum, en svo virtist alls ekki vera.

„Nei, það er rétt. Mér finnst við samt eiga inni. Við eigum eftir að bæta við möguleikum í sóknina og smá varnarlega. Það tekur tíma og við erum þolinmóðir, en meðan við leggjum okkr fram og höfum gaman að þessu þá er ég sáttur.”

Grindavík fær frí á morgun, en mætir svo Haukum í stórleik að Ásvöllum á sunnudag. Jóhann er spenntur fyrir því.

„Annað hörkuverkefni. Spila við fanta gott lið Hauka á erfiðum útivelli. Hlakka bara til,” en hvernig fannst honum Nathan Bullock koma inn í þetta?

„Hann er einn mesti eðal náungi sem ég hef komist í kynni við. Það er þægilegt að vera í kringum hann og það skemmir ekki fyrir að hann er góður í körfubolta,” sagði Jóhann að lokum.

Einar Árni: Hljótum að geta gert eitthvað aðeins betur

„Þetta var erfitt og virkilega vont. Við hlaupum með þeim í sex mínútur eða svo og svo ekki söguna meir,” sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þorlákshafnarliðsins, í leikslok.

„Við fengum á okkur 35 stig í fyrsta leikhluta. Það var mjög dapurt,” en staðan var 11-10 fyrir Grindavík. Staðan breyttist þaðan í 20-11 og þá var leik nánast bara lokið.

„Auðvitað voru menn að rembast og það voru einhver erfið skot hjá þeim; Þorsteinn missti hann ofan í fyrir utan og fleira, en við vorum arfaslakir varnarlega. Síðan köstuðum við boltanum frá okkur og gerðum okkur erfitt fyrir.”

„Staðan er ekki frábær á okkur og við erum ekkert að fela það, en það þýðir ekkert að fara frá því að þeir sem eru heilbrigðir hefðu þurft að gera betur í jólafríinu.”

„Við erum bara mæta hörkuliði sem þú þarft að spila mjög vel á móti. Við gerðum það í fimm til sex mínútur.”

Skammt er stórra högga á milli hjá Þór, en þeir mæta Njarðvík strax á mánudag. Það verður erfiður leikur segir Einar.

„Erfiður leikur og annað frábært lið á sterkum heimavelli. Þeir töpuðu sárt í gær og það verður erfitt. Það er hægt að væla yfir því að það sé stutt á milli, en það er líka þegar menn eiga svona frammistöðu þá getur verið jákvætt að rífa sig í næsta leik.”

„Við hljótum að geta gert eitthvað aðeins betur en við gerðum í dag, fjandakornið,” voru lokaorð þessa frábæra þjálfara að lokum sem á erfitt verkefni fyrir höndum að rétta gengi laskaðs liðs Þórs.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira