Golf

Valdís Þóra endaði þriðja og jafnaði besta árangur Íslendings

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valdís Þóra í brautinni í nótt
Valdís Þóra í brautinni í nótt mynd/let
Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Leyni, varð þriðja á Ladies Classic Bonville mótinu á Evrópumótaröðinni í golfi sem fram fór í Ástralíu um helgina.

Valdís var í toppbaráttu alla helgina, fór fyrsta hringinn á þremur höggum undir pari, annan daginn fór hún á tveimur höggum undir pari, paraði skor vallarins á þeim þriðja og fór lokahringinn í nótt á tveimur höggum undir pari.

Hún endaði því samtals á sjö höggum undir pari, þremur höggum frá hinni frönsku Celine Boutier sem vann mótið. Katie Burnett frá Bandaríkjunum var í öðru sæti.

Valdís spilaði nokkuð stöðugt golf í dag, fékk fjóra fugla og tvo skolla, en paraði hinar holurnar tólf. Með árangrinum í dag jafnaði hún besta árangur Íslendings á Evrópumótaröðinni, en hún átti hann sjálf frá því hún lenti í 3. sæti á móti í Kína á síðasta ári.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir endaði í 14. - 15. sæti á mótinu á pari vallarins ásamt Florentyna Parker frá Englandi.

Ólafía lék hringinn í dag á einu höggi undir pari. Hún byrjaði mótið hræðilega og fór fyrsta hringinn á 80 höggum, eða átta höggum yfir pari og var á meðal neðstu kvenna. Að hún hafi náð að komast í gegnum niðurskurðinn og vinna sig svo hátt upp töfluna er hreint ótrúlegur árangur.

Ólafía fékk þrjá fugla og tvo skolla á lokahringnum í nótt en spilaði rest á pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×