Lífið

Ganga stolt frá Eurovision

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ari á sviði í Lissabon ásamt bakröddum
Ari á sviði í Lissabon ásamt bakröddum Vísir/getty
„Þetta var yndisleg ferð sem einkenndist af mikilli og frábærri vinnu með stórkostlegum listamönnum,“ segir Þórunn Erna Clausen, höfundur lagsins Our Choice, sem var framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár. Ari Ólafsson flutti lagið.

Uppskeran í ár var heldur rýr. Ísland endaði neðst í fyrri undanriðli keppninnar og hlaut ekki stig í símakosningunni það kvöldið. Fimmtán stig fengust frá dómnefndum Evrópu.

„Þetta var mjög sterk keppni og við lentum í sterkasta riðli sem sést hefur í sögu Eurovision. Auðvitað hugsaði maður hvað hefði gerst hefðum við lent í hinum riðlinum en það breytir því ekki að við kepptum á fyrra kvöldinu,“ segir Þórunn.

Höfundurinn segir að hópnum hafi borist fjöldamörg skilaboð þar sem hópnum hafi verið hrósað. Sum þeirra hafi innihaldið þakkir þar sem lagið hafi hreyft við fólki og hjálpað því á erfiðum stundum. Hópurinn hafi verið á fullu úti og lítið fylgst með umræðum heima.

„Ég er mjög sátt með þær ákvarðanir sem voru teknar með atriðið og samstarfið með RÚV gekk mjög vel,“ segir Þórunn.

Í lokakeppninni hélt Þórunn með víkingunum frá Danmörku og var mjög ánægð með að þeir fengu tólf stig frá Íslendingum úr símakosninguni.




Tengdar fréttir

Segir að huga megi betur að sviðsetningunni

Fararstjóri íslenska hópsins í Eurovision segir keppendur ganga sátta frá borði þó atriðið hafi hafnað í neðsta sæti í keppninni. Þó sé tilefni til að huga betur að sviðsetningu okkar atriða í framtíðinni. Hann kveðst vona að hægt sé að horfa framhjá pólitík í úrslitum gærkvöldsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×