Umfjöllun og viðtöl: Keflavík 0-2 Valur | Meistararnir ekki í vandræðum með Keflavík

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Patrick og hans menn fögnuðu sigri.
Patrick og hans menn fögnuðu sigri. vísir/anton
Valur vann öruggan 2-0 sigur á Keflavík í tíundu umferð Pepsi deildar karla í dag. Sigurinn er sá sjötti í röð hjá Val sem situr á toppi pepsi deildarinnar með 24 stig, Keflvíkingar hafa hinsvegar ekki ennþá unnið leik og sitja á botni deildarinnar með 3 stig.

 

 

Valsmenn byrjuðu leikinn af krafti með því að sækja upp vinstri kantinn og fengu þrjár hornspyrnur vinstra megin á fyrstu tíu mínútum leiksins. Upp úr þeim kom þó lítið en Valsmenn hleyptu Keflvíkingum þó ekki mikið í sókn.  

 

 

Næstu tuttugur mínútur gerðist voðalega lítið, Valsmenn voru að reyna að koma boltanum inn á miðsvæðið en Keflvíkingum gekk vel að loka fyrir sendingarlínurnar. Keflvíkingar komu sér aðeins betur inn í leikinn á þessum kafla en komu sér samt aldrei í færi. 

 

 

Á 28. mínútu kom Ívar Örn Jónsson Val yfir með skoti með hægri fyrir utan teig Keflvíkinga, þetta var fyrsta mark Ívars í Pepsi-deildinni í sumar. Valsmenn voru ekki lengi að bæta öðru marki á töfluna en Patrick Pedersen skoraði á 33. mínútu eftir sendingu frá Kristni Frey Sigurðssyni. 

 

 

Á 35. Mínútu átti Lasse Riise fyrstu skottilraun Keflvíkinga í leiknum en skotið var annars ekki frásögu færandi, langt yfir markið og út í markspyrnu. Valsmenn voru áfram duglegir að sækja það sem var eftir af fyrri hálfleik en náðu þó engum alvöru færum. 

 

 

Seinni hálfleikur byrjar á miklum mótmælum Keflvíkinga en þeir vildu meina að Patrick Pedersen framherji Vals hafi slegið í Ísak Óla Ólafsson. Dómarinn fannst þetta vera venjulegt brot hafi verið að meina og dæmdi bara aukaspyrnu en ekkert spjald, stúkunnar til mikillar óánægju. 

 

 

Á 51. Mínútu fá Valsmenn besta færi seinni hálfleiks þegar Sigurður Egill skýtur boltanum fast í stöngina eftir aukaspyrnu frá Ívari. Annars var ekki mikið um skot fyrr en þegar Birkir Már Sævarsson, ákvað að hlaupa eins og vindurinn með boltann frá eigin vítateig að vítateig Keflavíkur en skaut svo langt yfir. 

 

 

Seinasta hálftímann var Patrick Pedersen tvisvar nálægt því að skora aftur í leiknum en fyrra skiptið varði Sindri Kristinn vel í markinu og annað skiptið þá var Marc McAusland mættur á endalínuna til að sparka boltanum út í horn. 

 

 

Hverjar stóðu upp úr?

Patrick, Kristinn Freyr og Andri Adolphs voru allir mjög hættulegir í dag og áttu varnarmenn Keflavíkur erfitt með að ná boltanum frá þeim. 

 

 

Það var svo sem ekki mikið að gera hjá vörn Vals en þegar þeir þurftu að gera eitthvað voru þeir öruggir í sínum aðgerðum og hleyptu Keflavík aldrei í nein færi. 

 

 

Dagur Dan Þórhallson kom inná í lið Keflavíkur á 60. Mínútu og má segja að hann hafi verið sprækasti leikmaður Keflavíkur fram á við. Sindri Kristinn gerði einnig vel í seinni hálfleik þar sem varði alveg nokkur skot í markinu og var öruggur í sínum aðgerðum. 

 

Hvað gekk illa?

Allt uppspil hjá Keflavík gekk illa eins og var sagt hér fyrir og náðu þeir ekki að skapa sér nein almennileg færi. 

 

 

Hvað gerist næst?

Valsmenn reyna að vinna sinn sjöunda leik í röð í Frostaskjóli á fimmtudaginn á meðan Keflvíkingar fá Stjörnuna í heimsókn á laugardaginn. Báðir leikir auðvitað í beinni á Stöð 2 Sport.

 

 

 

Óli Jó: Fótboltamenn eru fljótir að gleyma sér en við gerðum það ekki í dag

„Ánægður með 3 stig og halda markinu hreinu, það er sem við ætluðum okkur þegar við komum hingað,” sagði Ólafur Davíð Jóhannesson þjálfari Vals eftir leikinn hér í dag.

 

 

„Það hefur verið fín stemming í upphafi þannig já já, þetta hefur gengið svona,” sagði Óli um stemninguna í hópnum á meðan Valsmenn eru á þessari sigurgöngu. 

 

 

„Nei, það er nú þannig að það er aldrei auðvelt að mótivera menn, fótboltamenn eru fljótir að gleyma sér en við gerðum það ekki í dag,” sagði Óli um hvernig það gekk að mótívera hópinn eftir að tapa í bikarnum seinasta mánudag gegn Breiðablik þar sem Blikar skoruðu sigurmarkið í uppbótartími. 

 

 

„Það verður bara gaman að fara þangað, það er alltaf gaman að fara í Vesturbæinn, við förum að huga að því eftir daginn í dag,” sagði Ólafur um leikinn gegn KR á fimmtudaginn.

 

 

„Keflvíkingarnar náttúrulega börðust fyrir lífi sínu hérna, þannig að við áttum alltaf von á þetta yrði erfiður leikur og það gekk illa færin þarna eitthvað en tvö mörk það er frábært,” sagði Ólafur um hvernig sínu liði gekk að finna færi í leiknum

 

 

 

Guðlaugur Baldursson: Þetta var erfiður leikur

„Þetta var erfiður leikur, við erum að spila á móti mjög erfiðu liði, við lögðum okkur vel fram í verkefnið og áttum möguleika á að setja þá mark en svona kannski fengum ekki mörg færi en það var virkilega góður andi í hópnum og svona baráttuvilji,”sagði Guðlaugur Baldursson þjálfari Keflavíkur um leikinn.

 

 

„Það er bara verið að skoða það við verðum bara að sjá hvernig það lítur en ég veit það ekki ennþá,” sagði Guðlaugur um ástandið á Lasse Riise leikmanns Keflavíkur sem fór meiddur af velli á 80. Mínútu.

 

 

„Við reynum alltaf fyrir hvern einasta leik að undirbúa okkur þannig að við eigum möguleika á þremur stigum og við gerum það fyrir leikinn á móti Stjörnunni og vona svo sannarlega að við náum þeim þar,” sagði Guðlaugar aðspurður um hvenær fyrsti sigur Keflavíkur í deildinni í sumar myndi koma. 

 

 

 

Birkir Már : Gerðum það sem við ætluðum að gera

„Mjög solid frammistaða frá okkur og gerðum það sem við ætluðum að gera, fórum hátt á þá, spiluðum boltanum hratt og fengum þessi tvö mörk, mjög flott bara,” sagði Birkir um leik dagsins.

 

 

„Það er náttúrulega alltaf munur, aðstæður og allt svoleiðis en þetta er bara fótboltaleikur á milli 11 manna í hvoru liði og maður fer bara inn á völlinn til að vinna sama hvort það sé á HM eða í Pepsi deildinni,” sagði Birkir um muninn á milli þess að spila á HM í Rússlandi eða að spila hérna í Pepsi deildinni. 

 

 

„Já, ég hugsa að maður hugsi nú aðeins meira þegar maður er inni í teig í dekkningum og svoleiðis, að vera ekki að halda of mikið og þannig, svo það er aðeins öðruvísi,” sagði Birkir þegar hann var spurður um hvernig það hefði verið að spila með myndbandsdómgæslu á HM í Rússlandi.

„Mig langar alltaf að skora, það gerist ekkert svo oft það er alltaf gaman að skora, en skotið var ekki alveg nógu gott,” sagði Birkir um skot sem hann tók í leiknum þar sem hann hafði sprett frá eigin vítateig að vítateigur Keflavíkur án þess að gefa boltann.

 

 

„Alltaf gaman að spila á móti KR og þetta er svona skemmtilegasti útivöllurinn að koma og spila á finnst mér persónulega, þetta hefur gengið vel í gegnum tíðina líka í Frostaskjólinu, þannig að þetta verður bara fínn leikur,” sagði Birkir um leikinn á móti KR næstkomandi fimmtudag.

 

 

„Frábært, það er búið að ganga vel á meðan ég var í burtu og stefnum bara á að halda sigurgöngunni áfram,” sagði Birkir um að koma aftur inn í hópinn hjá Val en hefur núna unnið 6 leiki í röð í Pepsi deildinni. 

 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira