Innherji greindi í síðustu viku frá stjórnsýslukæru Símans þar sem fjarskiptafélagið hélt því fram að stöðugar breytingar á afskriftartíma í bókhaldi Ljósleiðarans bæru merki um tilraunir til að „fegra“ rekstrarniðurstöðuna.
Ef endingartími eignar er ranglega metinn leiðir það til þess að afskriftir sem færðar er til gjalda í rekstrarreikningi verði ýmist vanáætlaðar eða ofáætlaðar, og gefi þar með ranga mynd af rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins.
Árið 2008 var afskriftartími dreifikerfis Ljósleiðarans 7 til 25 ár en síðan þá hefur hann verið lengdur í nokkrum skrefum og er nú 9 til 46 ár. Síminn sagði að almennt þekktist ekki sá langi afskriftartími sem Ljósleiðarinn miðar við og vísaði til þess að Tengir á Akureyri, Telenor í Noregi og TDC Net í Danmörku afskrifi sín kerfi á 30 árum.
„Síminn telur augljóst að Fjarskiptastofa eigi að rannsaka hvort verið sé að framlengja afskriftartíma með ómálefnalegum hætti til þess að draga úr neikvæðri afkomu Ljósleiðarans,“ sagði fjarskiptafélagið sem benti jafnframt á að Ljósleiðarinn hefði skilað neikvæðu sjóðstreymi á hverju ári frá stofnun.
Ljósleiðarinn stóð fyrir útboði á grænum skuldabréfum í gær þar sem stefnt var að því að sækja 4 milljarða króna. Í kynningu sem var send á fjárfesta fyrir útboðið og Innherji hefur undir höndum var vikið sérstaklega að afskriftartíma ljósleiðarakerfisins.
Fastafjármunir Ljósleiðarans skiptast í netkerfi og endabúnað, sem afskrifast á 9 árum, ljósleiðaralagnir, sem afskrifast á 30 árum, og loks ljósleiðarakerfi, þ.e.a.s. ídráttarrör og strengir, sem afskrifast að meðaltali á 46 árum.
Ljósleiðarkerfið, sem nær til um 110 þúsunda heimila, er í grunninn tvö aðskilin kerfi; annars vegar rörakerfi og hins vegar strengjakerfi. Rörakerfið eru íhlutir úr plasti en strengjakerfið samanstendur af ljósleiðarastrengjum.
„Meginástæða þess að setja ljósleiðarastrengi inn í rörakerfi er sá möguleiki að endurnýja má strengina án þess að endurnýja rörakerfið [með jarðvinnufjárfestingum],“ segir í fjárfestakynningunni.
Ljósleiðarinn segir að líftími strengja sé metinn 30 ár en endingartími röra sé talinn vera að minnsta kosti 50 ár. „Samkvæmt kostnaðargreiningum fjárfestinga er stærsti kostnaðurinn við lagningu ljósleiðara fólginn í efni og vinnu við rörakerfi. Það er því mat Ljósleiðarans að ljósleiðarakerfisins sé yfir 46 ár.“
Þá bendir fyrirtækið á að NATO-strengurinn, sem nær hringinn í kringum landið en liggur þó ekki í röri, hafi verið lagður 36 árum og sé enn í fullri notkun.