Þetta sýnir nýbirtur ársreikningur BBA Fjeldco, sem er þriðja stærsta lögmannsstofa landsins sé litið til veltu, en í árslok 2021 voru 35 starfsmenn hjá félaginu og fjölgaði þeim um fimm á liðnu ári. Launakostnaður BBA Fjeldco var samtals 623 milljónir í fyrra og jókst um 80 milljónir á milli ára.
Lögmannsstofurnar BBA og Fjeldsted & Blöndal sameinuðust haustið 2019 undir nafninu BBA Fjeldco en félagið starfrækir meðal annars skrifstofu í London.
Sex stærstu eigendur BBA Fjelco fara með um 12,6 prósenta hlut hver. Það eru þeir Halldór Karl Halldórsson, Baldvin Björn Haraldsson, Þórir Júlíusson, Gunnar Þór Þórarinsson, Páll Jóhannesson, og Einar Baldvin Árnason. Hlutdeild hvers í hagnaði lögmannsstofunnar nemur því um 45 milljónum króna.
Síðasta ár einkenndist af mörgum stórum yfirtökum og samrunum í íslensku viðskiptalífi, einkum fyrirtækjakaupum af hálfu erlendra fjárfestingasjóða, sem ætla má að hafi haft jákvæð áhrif á afkomu BBA Fjeldco.
Á meðal verkefna sem BBA Fjeldco kom að á árinu 2021 var ráðgjöf við kaup Rapyd á öllu hlutafé Valitor af Arion banka fyrir 100 milljónir Bandaríkjadala, og eins ráðgjafi evrópska sjóðastýringarfyrirtækisins Vauban Infrastructure Partners sem keypti meirihluta í gagnaverinu Borealis Data Center. Þá var BBA Fjeldco einnig lögfræðilegur ráðgjafi Bankasýslunnar og Íslandsbanka í tengslum við frumútboð og skráningu bankans í júní í fyrra auk þess sem lögmannsstofan var ráðgjafi fjárfestingafélagsins Strengs þegar það gerði yfirtökutilboð í Skeljung í byrjun síðasta árs.