Covid-19 hafði talsverð áhrif á rekstur Medis, sem sérhæfir sig í sölu á lyfjum og lyfja hugviti, á síðasta ári samkvæmt skýrslu stjórnar.
„Víða komu upp vandamál í virðiskeðjunni sem seinkuðu afhendingu vöru, s.s. lokun landamæra, skortur á flutningabílstjórum og þar af leiðandi skortur á aðföngum. Kostnaður hefur aukist vegna erfiðari ytri aðstæðna og framleiðni minnkað þar sem erfitt hefur verið að senda aðföng á milli landa,“ segir í skýrslunni.
Þá hafði heimsfaraldurinn einnig áhrif á eftirspurnarhliðina á lyfjamarkaðinum. „Verulega dró úr eftirspurn á árinu 2021 á lyfseðilsskyldum lyfjum, sérstaklega í Evrópu þar sem eftirspurn minnkaði hvað mest. Af þessu leiddi minni sala á árinu 2021 í samanburði við árið 2020,“ segir jafnframt í skýrslu stjórnar sem tekur þó fram að eftirspurnin hafi byrjað að taka við sér á þessu ári.
Á árinu 2017 voru uppi áform um að selja Medis út úr Teva-samstæðunni og var verðið sagt liggja á bilinu 500 til 1.000 milljónir Bandaríkjadala, eða á bilinu 53 til 106 milljarðar króna miðað við gengi þess tíma. Hætt var við söluferlið undir lok árs 2018.
Frá árinu 2017 hafa tekjur Medis lækkað um 36 prósent og hagnaðurinn það ár nam um 13,5 milljónum evra samanborið við 5,3 milljóna evra hagnað á síðasta ári.