Innlent

Vilja að kolmunnaveiðum verði hætt

Norska hafrannsóknarstofnunin og danska matvælaráðuneytið vilja að kolmunnaveiðum verði hætt þegar í stað. Það myndi kosta Ísland marga milljarða króna. Í tölum Hagstofunnar fyrir árið 2003 kemur fram að íslensk skip veiddu 500 þúsund tonn af kolmunna og verðmæti aflans var 3,4 milljarðar króna. Það yrði því enginn smáspónn sem færi úr askinum ef veiðunum yrði allt í einu hætt. Kolmunni hefur í mörg ár verið veiddur langt umfram það sem sem vísindamenn hafa ráðlagt og það er enginn smáfloti sem sækir að þessum frænda þorsksins. Það eru skip frá Evrópusambandinu, Rússlandi, Noregi og Íslandi. Öll þessi ríki skammta sér sinn eigin kvóta og hann er ríflegur. Hið alþjóðlega hafrannsóknarráð, Ices, telur að það sé óhætt að veiða eina milljón tonna af kolmunna árlega. Undanfarin tvö ár hafa verið veiddar 2,3 milljónir tonna. Eftir nýjustu stofnmælingar eru Norðmenn og Danir orðnir verulega áhyggjufullir. Reiner Toresen, rannsóknarstjóri við Norsku hafrannsóknarstofuna, segir að hrygningarstofninn hafi minnkað um 30 prósent á einu ári. Toresen segir að það sé ekki komið upp neyðarástand enn þá en ef veiðum verði haldið áfram eins og hingað til verði komið neyðarástand árið 2007.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×