Innlent

G8 ráðherrar ósammála

Leiðtogar helstu iðnríkja heims kynntu niðurstöður fundar síns í Gleneagles í Skotlandi, sem lauk í dag. Ákveðið var að tvöfalda fjárframlög til Afríkuríkja. Á það má líta sem áfangasigur, ólíkt því sem gerðist með umbætur í umhverfismálum. Þar virðast leiðtogarnir seint ætla að verða sammála. Niðurstaða fundarins, sem haldinn var í skugga hryðjuverkanna í London, varð ekki sú sem allir höfðu óskað sér og langt frá þeim væntingum sem Bretar lögðu af stað með. Þó var samþykkt að fjárframlag ríkustu þjóða heims til Afríkuríkja tvöfaldist fram til ársins 2010. Það verður 50 milljarðar bandaríkjadollara á ári, eða um 3300 milljarðar íslenskra króna. Í því á að felast að allir íbúar Afríku fá aðgang að alnæmislyfjum, friðargæsla í álfunni verður efld og viðskiptasamningar breytast til batnaðar fyrir fátækustu þjóðirnar.  Tony Blair segir að niðurstaðan tákni ekki endalok fátæktar í Afríku en veki vonir um að hægt verði að binda endi á fátæktina. Niðurstaðan er ekki í samræmi við væntingar allra en er þó framför, raunveruleg og jákvæð þróun. Leiðtogarnir samþykktu einnig 3 milljarða dollara aðstoð til Palestínu og sagði Blair þá samþykkt fela í sér von um að ástandið við botn miðjarðarhafsins yrði friðvænlegra í kjölfarið. Eekki náðist fram nein tímamótasamþykkt um minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda, þrátt fyrir að fundarmenn viðurkenni að fyrirsjáanleg vandamál honum tengd hafi langvinnandi og alvarleg áhrif um allan heim. Tony Blair segir þá einnig hafa komið saman til þess að viðurkenna skyldur sínar og ábyrgð gagvart umhverfisvernd. Hann segir fundarmenn alls ekki hafa útilokað deilumál úr fortíðinni heldur hafa samþykkt ferli og skipulag og nýjan umræðugrundvöll milli G8 þjóðanna um að sameinast í því að minnka gróðurhúsaáhrifin. Sú umræða hefst 1. nóvember með fundi í Bretlandi.  Náttúruverndarsamtök gefa lítið fyrir þessa yfirlýsingu, segja hana útvatnaða, og sýna að leiðtogarnir hafi neyðst til að lúta vilja Bandaríkjamanna sem þvertóku fyrir að undirrita samkomulag um minnkum útblásturs gróðurhúsalofttegunda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×