Innlent

Skipaði sendiherra í þingfríi

George W. Bush Bandaríkjaforseti skipaði John Bolton í gær sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Bush nýtti sér tækifærið meðan öldungadeild Bandaríkjaþings var í fríi og komst þannig hjá staðfestingarferli þingsins þar sem ljóst þótti að miklar deilur yrðu um skipun Bolton. Bandarísk löggjöf kveður á um að þingið þurfi að staðfesta helstu skipanir forsetans. Hins vegar er til ákvæði í stjórnarskránni sem gerir forseta kleift að skipa einstakling í embætti þegar þingið er ekki að störfum. Það felur í sér að skipunin er gild þar til nýtt þing tekur við völdum í janúar 2007. Demókratar gagnrýndu Bush harkalega, hvort tveggja fyrir að skipa Bolton í embætti sem þeir telja hann óheppilegan í og fyrir að fara svona á svig við þingið. "Þessi staða er of mikilvæg til að skilja hana eftir ómannaða öllu lengur, sérstaklega á tímum stríðs og mikilvægrar umræðu um framtíð Sameinuðu þjóðanna," sagði George W. Bush.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×