Sport

Eiður sætti sig ekki við jafntefli

Ásgeir Sigurvinsson landsliðsþjálfari og Eiður Smári Guðjohnsen landsliðsfyrirliði eru sammála um að króatíska liðið sem mætir því íslenska í dag í undankeppni HM sé það sterkasta sem hefur mætt á Laugardalsvöllinn í langan tíma. Ásgeir gengur jafnvel svo langt að segja Króata með sterkara lið en Svía, sem burstuðu Íslendinga hér heima í fyrra, 4-1. "Króatar unnu Svía á útivelli og eru efstir í riðlinum, svo að það segir allt um getu þeirra," segir Ásgeir en ítrekar að liðið sé ekki ósigrandi. "Við verðum að eiga toppleik til að ná góðum úrslitum og það er það sem við erum að stíla inn á. Þeir munu líklega stjórna leiknum en við ætlum að reyna að loka svæðum og ekki gefa þeim neinn frið með boltann," segir Ásgeir. Eiður hefur ekki fengið tækifæri með Chelsea í síðustu leikjum en kveðst engu að síður í toppformi - og hungraður í að spila. "Mér finnst landsliðið hafa verið að spila mjög vel í síðustu leikjum og við byggjum á því," segir Eiður, sem var ekki með í fyrri leiknum í Króatíu vegna meiðsla en þá tapaði Ísland 4-0. Hann þekkir engu að síður vel til króatíska liðsins. "Í liðinu er leikmenn sem ég hef mætt í Meistaradeildinni. Þetta eru gæðaleikmenn. Fyrri leikurinn tapaðist fyrst og fremst á föstum leikatriðum en þau eiga að vera í lagi núna. Þar að auki erum við líka með fína leikmenn svo að ég hef ekki áhyggjur," segir Eiður, sem ævinlega setur markið hátt og vill ekki meina að jafntefli yrðu viðunandi úrslit í kvöld. "Ég er aldrei sáttur með stig. Ég er vanur að setja markmiðin eins hátt og hægt er og þessi leikur er engin undantekning."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×