Sport

Jónas æfur vegna slakrar dómgæslu

Jónas Sigursteinsson, þjálfari Þór/KA/KS í knattspyrnu kvenna, var afar ósáttur með Marínó Þorsteinsson, dómara í úrslitaleiknum við Fylki í 1.deild kvenna, en honum lauk með 3-2 sigri Fylkis og vann Árbæjarliðið sér með því sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili. Jónas skrifar pistil á heimasíðu Þórs þar sem hann segir dómarann ekki hæfan til þess að sinna starfi sínu. Freydís Jónsdóttir, sóknarmaður Þór/KA/KS, fótbrotnaði illa í leiknum eftir að hafa lent í samstuði við markvörð Fylkis en Marínó Þorsteinsson, dómari leiksins, dæmdi ekki á markvörðinn og er ákveðinn í því að ekki hafi verði um leikbrot að ræða. "Sóknarmaður Þór/KA/KS kemst í gegnum vörnina og er í miklu kapphlaupi við markvörð Fylkis um boltann. Þær renna sér eftir boltanum og skella síðan saman með þessum leiðu afleiðingum. Reyndar nær sóknarmaðurinn að komast á undan í boltann. Aðstoðardómarinn var mér sammála í því að ekki hefði verið um neitt leikbrot að ræða heldur einungis slys." Jónas er ekki sammála Marinó í þessu og segir hann einfaldlega ekki starfi sínu vaxinn. "Það var óskiljanleg ákvörðun hjá dómaranum að dæma ekki leikbrot á markvörðinn því þetta var harkalegt brot, þó ekki hafi verið um að neitt viljaverk að ræða. Það eru svona atvik sem knattspyrnudómarar verða að hafa á hreinu ef þeir ætla sér að hafa tök á leiknum. Það er einfaldlega hættulegt að hafa ekki þor til þess að grípa inn í þegar svona gerist. Það býður hættunni heim." Freydís er í gifsi en vonast til þess að losna úr því sem fyrst. "Ég verð að sætta mig við þetta en ég mun ekki spila fótbolta á næstunni. Vonandi næ ég að jafna mig á mettíma."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×