Sport

Hálfleikur á Englandi

NordicPhotos/GettyImages
Fyrri hálfleik er nú lokið í flestum leikjanna sem hófust klukkan 14 í ensku úrvalsdeildinni, en fá mörk hafa litið dagsins ljós fram að þessu. Staðan á Old Trafford er 1-0 fyrir Manchester United gegn grönnunum í Manchester City, en enn er markalaust hjá Tottenham og Liverpool. Það var Ruud van Nistelrooy sem kom Manchester United í 1-0 í grannaslagnum í Manchester rétt áður en flautað var til hálfleiks. Tottenham hefur verið sterkari aðilinn gegn Liverpool, en hefur ekki náð að skora. Eiður Smári Gudjohnsen er í byrjunarliði Chelsea, sem hefur ekki náð að skora á heimavelli sínum gegn Sunderland. Spútniklið Charlton leiðir 1-0 í hálfleik á útivelli gegn Birmingham og þar skoraði hinn efnilegi Darren Bent, sem var í gær kjörinn leikmaður mánaðarins í úrvalsdeildinni. Ófarir Newcastle virðast ætla að halda áfram, því liðið er 1-0 undir á heimavelli sínum gegn liði Heiðars Helgusonar, Fulham. Staðan í leik WBA og Wigan er jöfn 1-1, en enn er markalaust í leik Everton og Portsmouth.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×