Sport

Davíð Þór til Reading

Davíð Þór Viðarsson, knattspyrnumaður hjá FH, er á leið til enska félagsins Reading sem leikur í ensku 1.deildinni en hann fer til liðsins í október og verður þar til reynslu í óákveðinn tíma. Skömmu síðar leikur Davíð Þór svo með ungmennlandsliðinu gegn Svíum. Davíð Þór skrifaði nýlega undir samning við FH en hefur leikið með félaginu í gegnum alla yngri flokka. "Ég vonast til þess að geta sýnt hvað í mér býr hjá Reading. En annars er ég nýlega búinn að skrifa undir samning við FH þannig að ég er ekkert á förum nema ég verði keyptur." Davíð Þór var einn af lykilmönnum FH sem varð Íslandsmeistari fyrir skemmstu og hefur verið fyrirliði U-21 landsliðs Íslands í síðustu leikjum liðsins. Hann stefnir á að komast í atvinnumennskuna á nýjan leik. "Ég trúi því að ef ég held áfram að standa mig vel með landsliðinu og FH þá muni ég fá tækifæri í atvinnumennsku. Ég er ánægður með það hvernig mín mál hafa þróast í sumar. Það er landsleikur gegn Svíum framundan í október og ég ætla mér að standa mig vel í honum, þar sem vel verður fylgst með öllum þeim sem taka þátt í leiknum." Þrír Íslendingar eru á mála hjá Reading, þeir Brynjar Björn Gunnarsson, Ívar Ingimarsson og táningurinn Gylfi Sigurðsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×