Viðskipti innlent

Eyrir gerir stórkaup í Marel

Eyrir fjárfestingarfélag keypti í gær yfir tólf prósent hlutafjár í hátæknifyrirtækinu Marel fyrir tæpar 2.200 milljónir króna. Bréfin voru að megninu til keypt af Sjóvá-Almennum, sem áttu um tíu prósent í fyrirtækinu, en talið er líklegt að Landsbankinn hafi einnig selt bréf í sinni eigu. Eyrir greiddi 71,87 krónur fyrir hvern hlut og hækkaði Marel um tólf prósent í gær. "Þetta er í okkar huga langtímafjárfesting og við ætlum að fylgja félaginu til frekari vaxtar á komandi árum Ég hef þekkt Marel lengi og kom fyrst að því árið 1997 þegar ég annaðist fjármögnun á yfirtöku félagsins á Carnitech. Eyrir hefur síðustu mánuði fækkað sínum eignum á Íslandi og einbeitt sér að fjárfestingu í Össuri og Marel," segir Árni Oddur Þórðarson, hjá Eyri. Eftir kaupin ráða Burðarás og Eyrir um tveimur þriðju hlutum hlutafjár í Marel. Hlutur Burðaráss, sem rennur brátt til Landsbankans, er um 36 prósent en Eyrir á nú um þrjátíu prósent. Markaðsvirði Marels er nú um 16,5 milljarðar sem þýðir að verðmæti hlutabréfa Eyris í fyrirtækinu er nálægt fimm milljörðum króna. Marel hefur hækkað um fjörutíu prósent frá áramótum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×