Sport

Tottenham ætlar sér sigur í kvöld

Chris Houghton, aðstoðarmaður Martin Jol hjá Tottenham, segir að liðið sé búið að gleyma óförunum gegn Grimsby í deildarbikarnum í síðustu viku og segir að nú sé kjörið tækifæri til að taka góðan sprett í deildinni. Þjálfarar og leikmenn liðsins voru á einu máli um að tapið fyrir Grimsby hefði verið góð lexía fyrir liðið og nú vilja menn á White Hart Lane fara að vinna aftur, eftir að liðið hefur aðeins hlotið tvö stig af níu mögulegum í síðustu þremur leikjum í deildinni. "Við erum ekki sáttir við árangurinn úr síðustu leikjum, þó spilamennskan hafi verið þokkaleg á köflum. Ef maður hinsvegar nær að vinna þrjá til fjóra leiki í röð í deildinni, er maður fljótur að komast í góð mál og það er það sem við erum að vonast eftir núna," sagði Houghton. Lið Fulham hefur aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum í deildinni, en Houghton segir að það gefi ekki rétta mynd af styrk liðsins. "Þeir eru með hörkulið og þó þeir hafi átt brösulega byrjun, er ég viss um að annað verður uppi á teningnum hjá þeim eftir tvo mánuði," sagði Houghton. Heiðar Helguson verður að öllum líkindum á varamannabekknum hjá Fulham í kvöld, en vel má vera að hann fái að koma inná í kvöld, eftir að hafa náð að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið í bikarnum í síðustu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×