Sport

Íslendingar undir smásjánni

Það verður vel fylgst með leikmönnum ungmennalandsliðs Íslands í knattspyrnu þegar það mætir Svíum, en leikurinn fer fram hinn 11. október í Svíþjóð. Að sögn Ólafs Garðarssonar, umboðsmanns nokkurra leikmanna liðsins, má búast við því að forráðamenn flestra félaganna í Svíþjóð muni fylgjast með leiknum. "Ég veit til þess að það ætla margir að fylgjast með leikmönnum Íslands í þessum leik. Að sjálfsögðu verða þarna menn frá sænskum félögum og svo verða einnig forráðamenn enskra liða á leiknum, þannig að það er um að gera fyrir leikmenn íslenska liðsins sem þarna verða að vera vel undirbúnir og standa sig vel." Ólafur segist vita til þess að áhugi á nokkrum leikmanna íslenska liðsins sé fyrir hendi. "Það verður vel fylgst með Tryggva Bjarnasyni, Garðari Gunnlaugssyni, Sigmundi Kristjánssyni og Davíð Viðarssyni. Svo veit ég að það munu einhver félög fylgjast nokkuð vel með Pálma Rafni Pálmasyni. Annars eru möguleikar allra leikmanna liðsins jafnir og ef menn standa sig er aldrei að vita nema einhver félög vilji fá þá til sín." Tryggvi Bjarnason, leikmaður KR, er einn af þeim sem líklega verða í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn Svíum. Hann er meðvitaður um að vel verði fylgst með leikmönnum íslenska liðsins í leiknum. "Ég stefni á að komast í atvinnumennsku og það yrði bara gott mál ef ég kæmist út fljótlega. Til þess að fá möguleika á því að komast út verð ég að standa mig vel í leiknum gegn Svíþjóð. Þó hugur stefni út er ég ekkert að stressa mig á þessu. Ég verð þá bara áfram í KR og það er ekkert nema gott um það að segja."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×