Sport

Getur yfirstigið allar hindranir

Línur eru teknar að skýrast í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og er greinilegt að Chelsea ætlar sér ekki að láta meistaratitilinn af hendi baráttulaust. Eiður Smári Guðjohnsen hefur ekki leikið mikið með liðinu það sem af er vegna veikinda og meiðsla en hann er nú farinn að láta að sér kveða á nýjan leik og verður eflaust í leikmannahópi liðsins í dag þegar Liverpool og Chelsea mætast á Anfield í Liverpool. Magnús Halldórsson ræddi við Eið Smára um stöðu hans hjá félaginu nú þegar nokkrir af eftirsóttustu knattspyrnumönnum heims hafa verið keyptir til félagsins enn eitt árið. Það er ekki hægt að segja að keppnistímabilið hafi byrjað vel hjá Eiði Smára Guðjohnsen. Hann hefur þurft að glíma við sýkingu í hálsi sem hélt honum frá keppni og svo handarbrotnaði hann á æfingu fyrir skemmstu en lætur sig þó hafa það að spila með umbúðir. "Tímabilið hefði alveg mátt byrja betur. Ég veiktist eftir að nokkrir leikir voru búnir af tímabilinu. Ég fann fyrst fyrir veikindunum í landsleiknum hér heima gegn Króatíu en hélt að þetta væri ekkert alvarlegt og fór með landsliðinu til Búlgaríu. Þar var ég eiginlega orðinn hálfslappur en spilaði þó leikinn. Svona eftir á að hyggja þá var ekki skynsamlegt af mér að leika í seinni hálfleik þar sem ég var í raun orðinn fárveikur. Læknar hér hjá Chelsea sögðu mér að það hefði getað verið hættulegt að reyna mikið á mig með þessa sýkingu þannig að ég þakka nú fyrir að þetta fór ekki verr." Veikindin héldu Eiði Smára frá æfingum og keppni í á aðra viku en um leið og hann var að komast í gott form á nýjan leik handarbrotnaði hann. "Eftir að ég jafnaði mig af veikindunum handarbrotnaði ég á æfingu. Ég ákvað þó að spila með gifsið í leiknum gegn Aston Villa og það gekk ágætlega þannig að vonandi á þetta ekki eftir að há mér mikið." Essien er liðsfélagi, ekki andstæðingur Á sama tíma og Eiður Smári var að jafna sig af veikindunum hefur nýr leikmaður, Mikael Essien, farið mikinn hjá Chelsea og sýnt allar sínar bestu hliðar í hlutverki miðjumanns. Essien kostaði um þrjá milljarða íslenska króna þegar hann kom til liðsins frá franska liðinu Lyon. Eiður telur að koma hans ógni stöðu sinni hjá félaginu ekkert sérstaklega. "Essien er góður leikmaður, einstaklega kraftmikill, líkamlega sterkur og skilar varnarvinnunni vel. Ég lít ekki svo á að hann sé að halda mér út úr liðinu. Hann er einn af fjölmörgum frábærum leikmönnum hjá Chelsea sem berjast um stöðu í liðinu. Hann hefur fengið að spila mikið að undanförnu sem er eðlilegt því hann þarf að aðlagast leik okkar á skömmum tíma." Allar hindranir eru yfirstíganlegar Það má með sanni segja að Eiður hafi oft lent í þeirri stöðu að þurfa að berjast við heimsklassa leikmenn um stöðu og á árum sínum hjá Chelsea hefur honum alltaf tekist að vinna sér sæti í liðinu með góðri frammistöðu. En er samkeppnin um sæti í liðinu harðari nú en hún hefur áður verið? "Nei. Staða mín hjá Chelsea er ekkert verri en áður. Þolinmæði er gríðarlega mikilvæg þegar margir góðir leikmenn berjast um sæti í byrjunarliðinu og þess vegna mun ég bíða þangað til ég fæ mitt tækifæri og ætla að standa mig vel þegar kallið kemur. Ég er þannig gerður að ég eflist til muna við allt mótlæti og þegar á reynir þá held ég að mínir bestu leikir með Chelsea hafi oft verið þegar mest liggur við. Allar hindranir eru til þess að yfirstíga þær en ekki til þess að forða sér undan þeim. Þess vegna finnst mér það alltaf vera ánægjuefni þegar Chelsea fær góða leikmenn til félagsins. Það ógnar minni stöðu ekkert frekar en annara leikmanna." Chelsea langt frá sínu besta Þrátt fyrir töluverða yfirburði Chelsea í upphafi deildarkeppnarinnar á Englandi telur Eiður Smári liðið ekki vera búið að ná fram sínu besta. "Það hefur vantað aðeins meiri sköpun í sóknarleik okkar það sem af er. Spilið hefur verið svolítið stirt en ég er sannfærður um að það á eftir að breytast, eftir því sem lengra líður á tímabilið. Ég hef verið svolítið mikið inn og út úr liðinu en ég veit að ég mun fá mín tækifæri. Ég verð að nýta þau vel og tryggja mér sæti í liðinu." Áhorfendur andstæðinga Chelsea hafa mikið sungið um það hversu leiðinlegan fótbolta liðið hefur leikið síðan Portúgalinn José Mourinho tók við stjórnartaumunum hjá félaginu. Eiður hlær þegar minnst er á þetta og segir svona lagað ekki hafa nein áhrif á leikmenn Chelsea. "Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að hlusta á áhorfendur andstæðinga okkar hingað til. En ég get ekki með neinu móti ímyndað mér að við séum með leiðinlegasta liðið í deildinni. En það er allt reynt til þess að koma okkur úr jafnvægi." Þarf að fá að spila meira Eiður Smári æfir vel þessa dagana en segist þó eiga enn eftir að komast í sitt besta form. "Ég hef nú ekki spilað nógu mikið til þess að láta reyna á það hvort ég er í mínu besta formi. Ég æfi alltaf aukalega meðan ég er ekki að spila leikina og reyni þannig að vera tilbúinn til þess að koma inn í liðið með stuttum fyrirvara, en ég hugsa að ef ég myndi spila þrjá til fjóra leiki í röð þá væri ég kominn í mitt besta form." Eiður ítrekar jafnframt að hann búi að mikilvægri reynslu síðan hann þurfti að ganga í gegnum erfið meiðsli sem unglingur, sem héldu honum frá æfingum og keppni í tvö ár. "Ástæðan fyrir því að ég þoli álag vel er meðal annars sú að ég kynntist erfiðum meiðslum á besta aldri þegar ég var að vaxa mikið og byggja upp vöðva og gat ekkert verið í fótbolta í tvö ár. Hugsanlega hefði ég orðið kraftmeiri og hraðari leikmaður en ég er núna, en þessi tími kenndi mér margt og líklega er ég mun sterkari á andlega sviðinu núna heldur en ég hefði annars verið." Dreymir um að komast á stórmót Það má heyra það á Eiði Smára að hann er bjartsýnn á gott gengi íslenska landsliðsins í framtíðinni. Sérstaklega er það mikill kraftur í yngstu leikmönnum liðsins sem gefur tilfefni til bjartsýni. "Mér finnst hafa verið batamerki á leik okkar í síðustu landsleikjum. Grétar Rafn Steinsson hefur staðið sig frábærlega og á eflaust eftir að ná góðum árangri í framtíðinni, og það sama á við um aðra leikmenn, eins og Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Þetta eru efnilegir strákar sem koma til með vera lykilmenn landsliðsins á næstu árum og það er draumurinn að komast með landsliðinu í úrslitakeppni stórmóts." Betri en Ronaldinho? Eiður Smári hefur í tvígang verið nálægt því að komast í úrslitaleik meistaradeildar Evrópu og hefur leikið gegn mörgum af bestu leikmönnum heims. Hann er fljótur til svars þegar hann er inntur eftir því hver sé eftirminnilegasti andstæðingurinn. "Ronaldinho alveg klárlega. Hann er með ótrúlega góða boltatækni og hefur að auki framúrskarandi góðan leikskilning. En annars fer öll orkan hjá manni í það að einbeita sér að leiknum og því fer oft framhjá mér hvaða andstæðingar eru bestir. En elsti sonur minn, Sveinn Aron sem er sjö ára, var nú samt sannfærður um að ég væri betri en Ronaldinho að því að mér tókst að skora gegn Barcelona. Þannig að það er gott að vita til þess að það er einn í heiminum sem telur mig bestan."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×