Sport

Moyes áhyggjufullur

NordicPhotos/GettyImages
David Moyes, knattspyrnustjóri botnliðs Everton í ensku úrvalsdeildinni, hefur viðurkennt að martröð liðsins muni aðeins halda áfram í deildinni ef liðinu fer ekki að takast að skora mörk. Everton situr á botni deildarinnar með aðeins þrjú stig úr sjö leikjum, en því hefur aðeins tekist að skora eitt mark það sem af er. "Við erum ekki að gera okkur líklega til að skora mikið af mörkum með þeirri spilamennsku sem við höfum verið að sýna undanfarið og það sem meira er, fer það að hafa djúpstæð áhrif á leikmennina ef við náum ekki að snúa við blaðinu fljótlega," sagði Moyes, en Marcus Bent er enn sem komið er sá eini sem hefur náð að skora mark fyrir liðið. Það var þann 21. ágúst síðast liðinn, þegar liðið vann sinn eina sigur í deildinni gegn Bolton. "Við höfum verið að reyna að skipta um leikaðferð til að reyna að skora fleiri mörk, en allt hefur komið fyrir ekki. Þetta er ekki bara framherjunum okkar að kenna og satt að segja er mér nákvæmlega sama hvaðan mörkin koma, ef þau bara koma," sagði Moyes.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×