Sport

Gunnar Heiðar með gegn Svíum

"Sem betur fer eru ökklameiðslin ekki eins alvarleg og ég hélt. Það blæddi inn á hásin og ég verð rétt tæpa viku að jafan mig. Póllandsleikurinn á föstudaginn er úr sögunni en ég reikna fastlega með því að verða klár í slaginn gegn Svíum," sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson í samtali við Fréttablaðið eftir að hann kom úr læknisskoðun í gær. Hann meiddist í ökkla gegn Djurgården á mánudaginn og leist ekki á blikuna eftir leikinn. Að sögn Ásgeirs Sigurvinssonar landsliðsþjálfara verður ákveðið í dag hvort kallað verður á annan framherja í leikinn gegn Pólverjum. Gunnar Heiðar fer með landsliðinu til Póllands og verður í umsjá lækna landsliðsins. Markið sem Gunnar Heiðar skoraði gegn Djurgården hefur vakið gríðarlega athygli. Það var stórglæsilegt og þegar rætt um það sem mark ársins. Það er hugsanlega metið á tugi milljóna ef hann verður seldur frá Halmstad því verðmiðinn hækkar með hverjum leik. Gunnar Heiðar á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og talið líklegt að hann verði seldur í janúar nk. Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Gunnars Heiðar, segist hafa orðið var við mikinn áhuga á Gunnari Heiðari en vill ekki verðmerkja hann né markið sem hann skoraði. Von er á fulltúum tveggja félaga úr ensku 1. deildinn á Svíaleikinn í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×