Sport

Þarf metnaðarfyllra starfsumhverfi

Jóhannes Karl Guðjónsson, knattspyrnumaður hjá Leicester City, segist tilbúinn til þess að gefa kost á sér í landsliðið á nýjan leik. "Ég er tilbúinn til þess að gefa kost á mér á nýjan leik þegar metnaðarfyllra starfsumhverfi skapast. Annars hefur það haft góð áhrif á mína stöðu hjá Leicester City að vera ekki í landsliðinu. Ég er einn af fáum mönnum sem hef verið að spila alla leikina og mér er treyst fyrir mínu hlutverki inn á vellinum." Jóhannes segir bjarta tíma vera framundan hjá landsliðinu ef rétt er á spilunum haldið. "Það eru margir góðir leikmenn í íslenska landsliðinu og mér hefur fundist vera stígandi í leik liðsins í undanförnum leikjum. En það hefur ekkert fallið með liðinu. Vonandi breytist það þegar meiri metnaður verður einkennandi í kringum landsliðið." Það hefur ekki gengið vel hjá Leicester City á þessu tímabili en Jóhannes er þó sannfærður um að það búi meira í liðinu. "Við settum stefnuna fyrir tímabilið á að berjast fyrir því að komast í umspilið. Það hefur hins vegar lítið gengið hjá okkur það sem af er þó ég sé þokkalega sáttur við mína frammistöðu. En þetta er gríðarlega erfið deild og vonandi tekst okkur að ná okkur upp úr þessari lægð sem einkennt hefur spilamennsku okkar að undanförnu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×