Sport

Allt í góðu hjá Wenger og Henry

NordicPhotos/GettyImages
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að allt sé í himnalagi milli hans og framherjans Thierry Henry, þrátt fyrir að sá síðarnefndi hafi farið fram á að seinka viðræðum um framlengingu á samningi sínum við félagið. Henry tók þá ákvörðun að hefja ekki samningaviðræður fyrr en að þessu tímabili loknu, en þá mun hann eiga 12 mánuði eftir af samningi sínum. Frakkinn hefur undanfarið verið orðaður mikið við félög á Spáni og stuðningsmenn Arsenal óttast að hann gæti farið frá félaginu fyrir smáaura ef hann ákveður að fara þegar skammt er eftir af samningi hans næsta sumar. Arsene Wenger segir þó að hann hafi ekki stórar áhyggjur af því þó Henry vilji seinka viðræðum. "Það er hans ákvörðun og við verðum bara að virða hana. Við viljum auðvitað koma þessu frá sem fyrst, en ef annar tveggja aðila er ekki reiðubúinn að setjast að samningaborðinu, hefur ekkert upp á sig að standa í því," sagði Wenger. Henry hefur misst af sex leikjum vegna meiðsla, en von manna er að hann snúi aftur gegn West Brom um aðra helgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×