Sport

Guðjón æfur eftir tapið í gær

Guðjón Þórðarson, stjóri Notts County, var skiljanlega ekki kátur með sína menn eftir fyrsta tap liðsins á heimavelli á leiktíðinni gegn Boston United í gær og leikmenn hans eiga ekki von á góðu, því hann segist ætla að eyðileggja helgina fyrir þeim. "Ég er afar óhress með frammistöðu margra af leikmönnum mínum í gær og úr því að þeir eyðilögðu helgina fyrir mér, mun ég sjá til þess að helgin þeirra verði eyðilögð í staðinn. Það verða stífar æfingar tvisvar á dag fram í næstu viku, það er á hreinu," sagði Guðjón, sem sagði að sér hefði ofboðið að fylgjast með leiknum. "Stolt mitt er sært eftir að hafa horft upp á mína menn með hangandi haus í leiknum. Við fáum á okkur tvö mörk út af kæruleysislegum varnarleik og ég er afar vonsvikinn með það hvað leikmennirnir brugðust illa við á vellinum," sagði Guðjón, sem var ekki heldur ánægður með leikaðferð andstæðinganna, sem horfðu á eftir tveimur leikmönnum sínum í bað eftir að þeir fengu sitt annað gula spjald fyrir að tefja leikinn í lokin. "Það er sorglegt að sjá menn koma óorði á þessa frábæru íþrótt með því að haga sér svona. Það er svosem ekki mitt að dæma um svona háttalag á knattspyrnuvellinum, en maður skyldi ætla að menn hefðu meira stolt en þetta til að spila eins og menn."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×