Sport

Óvíst með Auðun

"Það er farið að líta betur út með Gunnar Heiðar en það er enn óvissa með Auðun fyrir þennan leik gegn Svíþjóð," sagði Logi Ólafsson landsliðsþjálfari í gær, rétt áður en haldið var til Svíþjóðar. Sóknarmaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson gat ekki leikið með í vináttulandsleiknum gegn Póllandi vegna meiðsla en útlitið varðandi hann er orðinn mun bjartara og verður hann með á æfingu hjá landsliðinu í dag. Gunnar hefur verið í fantaformi í sænska boltanum að undanförnu og er markahæsti leikmaður deildarinnar þar. Hannes Þ. Sigurðsson sem lék í sókninni gegn Póllandi stóð sig vel og verður að teljast líklegt að hann verði aftur með A-landsliðinu gegn Svíþjóð. "Það er ekkert komið í ljós varðandi Auðun en hann er þó farinn að skokka. Það er samt ekkert hægt að segja meira fyrr en hann prófar að sparka í bolta," sagði Logi en Auðun fór meiddur af velli í leiknum gegn Póllandi eftir að hafa fengið högg á hnéð. Hann var tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla á hinu hnénu og kemur það í ljós þegar nær dregur hvort hann geti leikið gegn Svíþjóð. Mótherjar okkar eru einnig í meiðslavandræðum fyrir leikinn en nokkrar skærustu stjörnur Svía verða fjarri góðu gamni í leiknum sökum meiðsla. Íslenski hópurinn kom til Svíþjóðar í gær og horfði á mótherja okkar á miðvikudag leika gegn Króatíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×