Viðskipti innlent

Stofna dreifingarfyrirtæki í Danmörku

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Svenn Dam Svenn er forstjóri 365 Media Scandinavia.
Svenn Dam Svenn er forstjóri 365 Media Scandinavia.
Post Danmark og 365 Media Scandinavia, dótturfélag Dagsbrúnar, hafa komist að samkomulagi um stofnun sameiginlegs dreifingarfyrirtækis í Danmörku. Fyrirtækið kemur til með að dreifa Nyhedsavisen, væntanlegu fríblaði 365 Media, á landsvísu í Danmörku.

Dreifingarfyrirtækinu hefur ekki enn verið gefið nafn, en 365 Media Scandinavia mun eiga í því 51 prósent og Post Danmark 49 prósent.

Við komum einfaldlega á fót því dreifingarkerfi sem skortur hefur verið á í Danmörku fyrir dreifingu ómerktra sendinga og tryggjum að þeim verði komið til viðtakenda fyrir klukkan 7 á hverjum morgni sex daga vikunnar. Við hlökkum til að nýta reynslu okkar á nýjum markaði, segir Helge Israelsen, forstjóri Post Danmark.

Svenn Dam, forstjóri 365 Media í Danmörku, segir litið á stofnun dreifingarfyrirtækisins sem loka­áfangans í undirbúningi þess að koma á fót fríblaðinu Nyhedsavisen. Við vitum hversu mikilvægt það er að engum hefur tekist að ná utan um dreifingarmálin. Þess vegna er það augljóslega mikið tækifæri að komast í samstarf við fyrirtæki sem þekkir dreifingarmál í Danmörku hvað best, segir hann.

Post Danmark er í meirihlutaeigu danska ríkisins. Í viðtali við viðskiptablaðið Børsen í gær veltir fjölmiðlafræðingurinn Jørgen Poulsen upp þeirri spurningu hvort nýju dreifingarfyrirtæki verði stætt á að neita að dreifa fríblöðum samkeppnisaðila, svo sem fyrirhuguðu blaði Jyllands-Posten og Politiken. Samkeppniseftirlitið danska hefur málið til skoðunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×