Viðskipti innlent

Heildarafli eykst á milli ára

aflanum landað Heildarafli íslenskra skipa jókst um 38.000 tonn í síðasta mánuði frá sama tíma fyrir ári.
aflanum landað Heildarafli íslenskra skipa jókst um 38.000 tonn í síðasta mánuði frá sama tíma fyrir ári.

Heildarafli íslenskra skipa var tæp 179.000 tonn í síðasta mánuði, samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu. Þetta er rúmum 38.000 tonnum meiri afli en í sama mánuði í fyrra. Ástæðan er að stórum hluta sú að kolmunnaveiði var um 34.000 tonnum meiri nú en í maí á síðasta ári.

Kolmunnaveiðin í vor og sumar gekk ágætlega og hafa veiðst 238.000 tonn, sem eru um 67 prósent af úthlutuðum kvóta. Botnfiskaflinn jókst um 10.000 tonn, þar af nemur aukning þorskaflans 2.000 tonnum. Hlutfallsleg aukning var mest í ufsa, úthafskarfa og grálúðu, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu.

Heildarafli íslenskra skipa nemur 652.000 tonnum það sem af er ári. Þetta er 36 prósenta samdráttur á milli ára en í fyrra nam heildaraflinn rúmri milljón tonna.

Þá er loðnuvertíðin styttri í ár og skýrir það stærstan hluta samdráttarins. Á móti kemur að mun hærra hlutfall af aflanum í ár fór til manneldisvinnslu, auk þess sem afurðaverð var hátt. Aflaverðmæti liggur ekki fyrir en greiningardeild Glitnis banka segist reikna með að aflaverðmætið hafi dregist saman um 11-13 prósent milli ára á föstu verðlagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×