Viðskipti innlent

Olían stöðug við 70 dali

Olíuvinnslustöð í Kaliforníu Sérfræðingar telja líklegt að olíuverð muni haldast stöðugt kringum sjötíu bandaríkjadali á fat. Daglega eru framleiddar 87 milljónir fata, langstærstur hluti fer beint í neyslu.
Olíuvinnslustöð í Kaliforníu Sérfræðingar telja líklegt að olíuverð muni haldast stöðugt kringum sjötíu bandaríkjadali á fat. Daglega eru framleiddar 87 milljónir fata, langstærstur hluti fer beint í neyslu.

Spákaupmennska og skortur á olíuhreinsistöðvum halda heimsmarkaðsverði á olíu í hæstu hæðum að mati markaðsstjóra Atlantsolíu.

Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði lítillega í gær og stendur nú í 69,48 bandaríkjadölum á fatið. Verðhækkunin er til komin vegna þverrandi umframbirgða á olíu auk þess sem mikil eftirspurn er nú í Bandaríkjunum vegna sumarleyfa.

Sérfræðingar telja líklegt að olíuverð haldist stöðugt kringum sextíu og fimm til sjötíu dali á næstu misserum. Benda þeir einkum á aukna eftirspurn Kínverja eftir olíu en innflutningur til landsins hefur aukist um nítján prósent undanfarið ár. Þá telja menn ástandið í Austurlöndum nær líklegt til að halda olíuverðinu uppi enn um sinn.

Olíufatið fór hæst í 75 bandaríkjadali á vormánuðum og hefur hækkað um tæplega fjórðung síðastliðið ár. Verð lækkaði þó talsvert í síðustu viku vegna frétta af þíðu í samskiptum Bandaríkjamanna og Írana auk fráfalls jórdanska uppreisnarmannsins Abu-Musab al Zarqawi. Þá hefur eftirspurn á heimsvísu að mestu staðið í stað.

Bensínverð á Íslandi er frá 124,7 krónum á lítrann í sjálfsafgreiðslu og upp í rúmar 126 krónur. Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu, segist hafa lært það á sviptingum undanfarinna mánuða að spá helst ekki neinu. Það sem er rétt fyrir hádegi getur verið orðin tóm steypa um miðjan daginn. Eins og staðan er í dag má þó kannski frekar búast við lækkunum.

Hugi telur tvær meginástæður fyrir því að olíuverð sé jafn hátt og raun ber vitni. Í fyrsta lagi ýtir spákaupmennska verðinu upp, og í annan stað er hreinlega skortur á olíuhreinsistöðvum. Það er næg olía til í heiminum en það er eins og enginn vilji olíuhreinsistöð í sínum bakgarði.

Daglega eru framleiddar um 87 milljónir olíufata í heiminum. Þar af fara um 85 milljónir fata beint til neyslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×