Viðskipti innlent

Horfir til lækkunar

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði lítillega á helstu fjármálamörkuðum í gær og fór í tæpa 66 dali á tunnu. Þar með lauk sex daga samfelldu lækkunarferli á olíuverðinu. Gengissveiflur krónunnar hamla dagsveiflum í olíuverði hér á landi.

Hráolíuverð fór hæst í 78,64 dali á tunnu um miðjan júlí síðastliðinn eftir að Ísraelsher réðst gegn Hizbollah-samtökunum í Líbanon en um sögulegt hámarksverð var að ræða. Í kjölfar vopnahlés á milli stríðandi fylkinga í ágúst lækkaði verðið snarlega og hefur lækkað um 20 prósent síðan þá.

Jónas Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá olíufélaginu, segir eftirspurn eftir eldsneyti og gengissveiflur krónunnar auk heimsmarkaðsverðs á hráolíu stýra eldsneytisverði hér á landi. Þótt verð á eldsneyti hafi lækkað nokkuð síðustu daga á heimsmarkaði þá hafi gengi krónunnar veikst á móti og séu lækkanirnar því ekki jafn miklar hér og erlendis. Á sama hátt hafi gengi krónunnar styrkst um miðjan júlí og því hækkaði eldsneytisverð ekki jafn mikið hér og utan landsteina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×