Viðskipti innlent

Sparisjóðir hagnast verulega á Existu

Nokkrir sparisjóðir hafa tekið tæpa nítján milljarða króna í óinnleystan gengishagnað vegna skráningar Existu í Kauphöll Íslands en sex sparisjóðir og Sparisjóðabankinn eiga um sautján prósent hlutafjár í félaginu. Til samanburðar högnuðust sömu sparisjóðir um níu milljarða allt árið í fyrra.

Þessi óinnleysti gengishagnaður fæst út með því að reikna út þann mun sem var á markaðsvirði Existu í gær og eigin fé félagsins í lok júní sem var um 143 milljarðar. Exista var metið á 254 milljarða króna í gær en bréf félagsins hafa hækkað um níu prósent frá útboðsgengi.

Gengishagnaður SPRON er áætlaður um sjö milljarðar króna, 5,1 milljarður hjá Sparisjóðabankanum og yfir 3,4 milljarðar hjá Sparisjóðnum í Keflavík.

Einhverjir sparisjóðir hafa fært hlutabréfin í Existu til bókar sem fjárfestingarhlutabréf þannig að gengishagnaður hvers sparisjóðs kann að vera meiri í sumum tilvikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×