Innlent

Borgarbúar muni finna þegar nýr meirihluti tekur við

Björn Ingi Hrafnsson kemur til meirihlutaviðræðna
Björn Ingi Hrafnsson kemur til meirihlutaviðræðna MYND/Pjetur Sigurðsson

Sjálfstæðismenn eru fullir tilhlökkunar yfir meirihlutassamstarfi sínu við Framsóknarmenn í borginni. Oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík segir að borgarbúar muni stax á næstu dögum sjá að nýr meirihluti sé tekinn við borginni.

Fjölmennt var á fundi framsóknarfélaganna í Reykjavík sem haldinn var í höfuðstöðvum flokksins við Hverfisgötuna í gærkvöldi. Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna í Reykjavík, kynnti málefnasamning framsóknarflokks og sjálftæðisflokks á fundinum og að hans sögn voru viðtökurnar góðar.

Borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins funduðu einnig í gærkvöldi í Valhöll þar sem tilvonandi meirihlutasamstarf var rætt. Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi tekur undir orð Björns Inga og segir að borgarbúar muni strax sjá breytingar á næstu dögum og vikum. Hann segir að tilvonandi meirihluti hafi mörg verk að vinna og nýjum meirihluta sé ekki til setunnar boðið að hefjast handa. Gísli Marsteinn segir að tilvonandi embættismenn borgarinnar búi yfir reynslu og þekkingu sem muni skila sér til borgarbúa.

Málefnasamningur flokkanna verður kynntur síðar í dag að loknum aukafundi í borgarstjórn þar sem kosið verður um borgarstjóra, embættismanna borgarstjórnar og í ráð og nefndir á vegum borgarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×