Fótbolti

Dómara bárust morðhótanir

Alvarez stóð í ströngu um helgina og hér er hann að tala við þá Guti og Casillas hjá Real Madrid
Alvarez stóð í ströngu um helgina og hér er hann að tala við þá Guti og Casillas hjá Real Madrid AFP

Spænski dómarinn Javier Turienzo Alvarez sem dæmdi tvær umdeildar vítaspyrnur á Real Madrid í 2-1 tapi liðsins gegn Racing Santander um helgina hefur upplýst að sér hafi borist yfir 50 morðhótanir í kjölfarið. Dómarinn vísaði tveimur leikmönnum Real af velli í þessum sama leik, sem kann að hafa kostað stórveldið möguleika á titlinum.

"Ég hef tekið á móti meira en fimmtíu símhringingum þar sem mér og fjölskyldu minni var hótað lífláti. Ég á sex ára gamla dóttur sem kom grátandi heim í gær og sagði að önnur börn hafi ráðist að henni og sagt henni að pabbi hennar hafi eyðilagt fyrir Real. Þetta særir mig djúpt," sagði Alvarez.

Spænska blaðið Marca, sem er mjög á bandi Real Madrid, birti stóra mynd af Alvarez á forsíðu sinni með fyrirsögninni; "Þetta er maðurinn sem kostaði okkur sigurinn í deildinni." Daginn eftir var honum aftur slegið á forsíðu eftir að hann hafði reynt að verja gjörðir sínar í leiknum og þá var fyrirsögnin; "Ég drap engan."

Alvarez segir að 30-40 manns hafi hópast um hann daginn eftir að blaðið kom út og hrópað niðrandi orð að honum. Allir héldu þeir á blaðinu og létu svívirðingum rigna yfir dómarann. "Blaðið birti myndir af mér sem ögruðu fólki til að ráðast að mér. Ég er hræddur um að svona lagað eigi eftir að verða til þess að eitthvað slæmt gerist einn daginn," sagði dómarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×